24.07.2012 17:15
Góð ufsaveiði á Halanum og makrílveiðar gengu vel
1585. Sturlaugur H. Böðvarsson AK 10 © mynd af vefsíðu HB Granda
,,Það er víst óhætt að segja að þetta hafi verið mokveiði. Við vorum að leita að ufsa á Halanum og fengum 80 til 90 tonn á til þess að gera skömmum tíma. Aflinn var lítið blandaður fyrir utan hvað að í fyrsta holinu var aflinn karfi og ufsi svo að segja til helminga. Þorskurinn var heldur ekkert að þvælast fyrir okkur og við erum sennilega ekki með nema um tvö tonn af þorski í þessum túr."
Þetta segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Sturlaugi H.
Böðvarssyni AK, en er rætt var við hann fyrr í dag var skipið á leið til
Reykjavíkur og er von á því til hafnar í nótt.
Í síðustu viku var áhöfnin á Sturlaugi á makrílveiðum. Farið var í þrjár veiðiferðir og var aflinn samtals um 160 tonn.
,,Við byrjuðum á Jökultungunni þar sem við fengum um 50 tonn af
makríl. Síðan fórum við á Reykjanesgrunnið og fengum þar um 110 tonn af
makríl í tveimur veiðiferðum. Siglingin á miðin á Reykjanesgrunninu
tekur rúma fimm tíma og það segir sitt aflabrögðin að í fyrri túrnum
vorum við 14 tíma höfn í höfn og ekki nema 12 tíma í þeim síðari," segir
Eiríkur en að hans sögn er mikið af makríl og mjög víða við
vesturströndina. Algeng stærð á makrílnum er 300 til 500 grömm en
stærstu fiskarnir vógu allt að 800 grömm. Allur aflinn fer til vinnslu á
Akranesi þar sem makríllinn er heilfrystur í lausfrystum.
Þetta er þriðja árið sem áhöfnin á Sturlaugi stundar makrílveiðar að sumarlagi og að sögn Eiríks hafa menn náð góðum tökum á veiðunum. Notað er flottroll frá Hampiðjunni af gerðinni Gloría 800 og skiptast ísfisktogarar HB Granda um að nota trollið. Ásbjörn RE er nú að makrílveiðum og í næstu viku tekur Ottó N. Þorláksson RE við og lýkur við að veiða makrílkvóta ísfisktogaranna.
