21.07.2012 21:09
Fjölskrúðugt mannlíf á hafnarsvæðum Faxaflóahafna
Mannlíf á Skarfabakka © mynd af vef Faxaflóahafna, 18. júlí 2012
Í veðurblíðunni síðustu daga hefur verið ys og þys á sjó og landi í höfnum Faxaflóahafna sf. Almenningur hefur kunnað vel að meta það sem nálægðin við sjó og skip hefur upp á að bjóða í bland við iðandi hafnarstarfsemi - fisk og haftengda ferðaþjónustu.
Í Gömlu höfninni hefur Grandagarðurinn og skemmtileg starfsemi í verbúðunum þar dregið til sín fólk, nýja hótelið í Slippfélagshúsinu nýtur mikillar athygli, Suðurbugtin með fjölbreytta starfsemi í verbúðunum þar og hvalaskoðunin er mikið aðdráttarafl, MIðbakkinn er að venju áningarstaður ferðafólks og fólk nýtur umhverfis og innviða Hörpunnar. Í Sundahöfn, þar sem tugþúsunda farþega skemmtiferðaskipa fara nú um sækir fólk í Viðeyjarferðir, göngutúr út á Skarfagarð eða sólbað á "baðströndinni" við Skarfaklett og á Akranesi er það Langisandur sem dregur að sér börn og fullorðna sem aldrei fyrr.
Á hafnarbökkum allra þessara hafnarsvæða dorga veiðimenn í erg og gríð - og nú er það aðallega makríll sem hleypur á önglana - en hafið er dularfull matarkista og ævintrýraheimur - þannig að það er aldrei að vita hvað fæst á öngulinn þegar dorgað er í blíðunni.
Almenningur kann augljóslega vel að meta gott aðgengi að áhugaverðum og notarlegum stöðum á hafnarsvæðunum - en í bland sinna sjómenn, ferðaþjónustuaðilar og hafnarkallar verkefnum sínum í sátt og samlyndi við áhugasama lífsnjótendur!
