19.07.2012 07:00

Erika fékk ekki að landa makríl hér á landi

mbl.is:

Grænlenska makrílveiðiskipið Erika fékk ekki að landa hér makríl sem það veiddi í grænlensku efnahagslögsögunni. Útgerðin hafði reiknað með að geta landað á Íslandi. Skipið var búið að fá 550 tonn, að sögn fréttavefjarins Sermitsiaq, þegar bannið kom í fyrradag og átti aðreyna að landa í Færeyjum.

Ane Hansen, sem fer með sjávarútvegsmál í grænlensku landstjórninni, hafði samband við íslensk stjórnvöld vegna málsins. Stjórnarformaður útgerðar Eriku sagði Íslendinga haga sér gagnvart Grænlendingum eins og þeir sökuðu ESB um að koma fram við sig.

Eiríkur Björnsson Fiskistofustjóri sagði ástæðuna fyrir því að Erika fékk ekki að landa hér að finna í íslenskum lögum. Í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands (22/1998) segi að skip sem stunda veiðar úr fiskistofnum sem ekki eru samningar um nýtingu á, eins og makrílstofninum, sé óheimilt að koma til hafna á Íslandi. Eiríkur benti á að lögin væru frá 1998 og því nokkuð langsótt að tengja þetta makríldeilunni.

                              Erika GR 18-119 © mynd Svafar Gestsson 2011