13.07.2012 20:47
Fitnessdrottning á frystitogara
"Strákarnir ljúfir en hlífa mér ekkert.""Þetta er mjög erfitt en ótrúlega skemmtilegt," segir fitnessdrottningin Kristrún Sveinbjörnsdóttir en hún er háseti á Baldvini Njálssyni GK 400.
Kristrún er Íslandsmeistari unglinga í fitness en þessi 19 ára Borgfirðingur veigrar sér ekki við að slá úr 30 kílóa frystipönnum um borð. Hún er eina konan í 25 manna skipshöfn en segir strákana um borð taka sér vel.
"Þeir taka mér æðislega vel, strákarnir um borð. Þeir eru mjög ljúfir við mig. Hlógu reyndar aðeins að mér þegar þeir sáu mig fyrst upp á dekki en svo bara sýndi ég þeim hvað ég gat. Þannig að þeir eru bara ánægðir með mig. En hlífa mér ekki neitt, sem er mjög fínt."
Kristrún segir það ekki skemma að vera í formi í hásetastarfinu.
"Nei, það skemmir sko ekki. Þetta er mjög erfitt og það tekur á að vera
að meðhöndla pönnur sem eru flestar í kringum 30 kíló," en þetta er í fyrsta skipti sem Kristrún er til sjós. Hún hélt í sinn annan túr í gær, fimmtudag.


