10.07.2012 20:21

Eyfirðingar þjónusta olíuleitarflota af Drekasvæðinu

visir.is


Olíurannsóknarskipið Nordic Explorer við bryggju á Akureyri í dag.
Olíurannsóknarskipið Nordic Explorer við bryggju á Akureyri í dag. Mynd/N4


Floti fjögurra olíurannsóknarskipa kom inn til Akureyrar í dag af Drekasvæðinu til að sækja sér vistir og þjónustu sem og til áhafnaskipta. Eyfirðingar fá þarna forsmekkinn af þeim umsvifum sem vaxandi olíuleit í Norðurhöfum gæti skapað á Íslandi á næstu árum.

Rannsóknarskipið Nordic Explorer fer fyrir flotanum en með því eru þrjú fylgdarskip, tvö færeysk og eitt íslenskt, Valberg VE. Flotinn hefur undanfarnar fimm vikur verið við hljóðbylgjumælingar á Jan Mayen-hryggnum á vegum Olíustofnunar Noregs en í samstarfi við Orkustofnun og síðustu dagana Íslandsmegin á Drekasvæðinu.

Á bryggjunni beið margskyns varningur en skipin kaupa hér þjónustu, olíu og vistir, að sögn Péturs Ólafssonar, markaðsstjóra Hafnasamlags Norðurlands.

Akureyri er nýtt til áhafnaskipta en yfir fimmtíu áhafnarmeðlimir af öllum skipunum fljúga til Íslands til móts við skipin og aðrir fimmtíu fljúga svo héðan heim og flestir gista eina til tvær nætur á hótelum.

Skipin þurfa einnig viðgerðir á tækjum og skapa þannig atvinnu fyrir stéttir eins og rafeindavirkja og málmiðnaðarmenn.

Pétur segir í viðali í fréttum Stöðvar 2 að sterkir innviðir valdi því að Akureyri er valin sem þjónustuhöfn og nefnir þætti eins og flugvöll, hótel, sjúkrahús og öflugan járniðnað, sem og góða höfn.

Rannsóknarflotinn siglir aftur á Drekasvæðið síðdegis á morgun til að leita meiri vísbendinga um olíu.