25.06.2012 13:30
Njörður fundinn í Noregi - týndur í 996 daga
Í hádeginu í dag birti ég frétt af mbl.is um fund á björgunarbátnum Nirði Garðarssyni við Noreg en nú birti ég frétt vf.is af sama tilefni.

Njörður Garðarsson, björgunarbátur björgunarsveitarinnar Suðurnes sem
slitnaði aftan úr björgunarskipinu Hannesi Þ. Hafstein á Faxaflóa í
brotsjó árið 2009 er nú loks kominn aftur í leitirnar. Eftir að hafa
verið týndur í 996 daga þá fannst báturinn nú um helgina, 1077 mílum frá
þeim stað sem hann týndist. Njörður fannst við Vesterålen
sem er nyrst í Noregi en það var norskur fiskibátur sem var bátsins
var, en stefnið á Nirði stóð upp úr hafinu eins og sjá má á myndum hér
að neðan. Báturinn, sem er Atlantic 21 harðbotna björgunarbátur,
slitnaði aftan úr björgunarskipinu í október árið 2009 eftir að brotsjór
hafði komið á skipið og hvarf sjónum manna. Bátsins var leitað lengi
vel en án árangurs.
Kári Viðar Rúnarsson formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes sagði í
samtali við VF að það væru vissulega gleðitíðindi að heyra af bátnum og
hann var á því að fundurinn væri ansi merkilegur fyrir margra hluta
sakir. "Hönnuður bátsins hafði alltaf sagt að það væri varla hægt að
sökkva bátnum nema hann myndi hreinlega brotna í spað. Það hefur því
sýnt sig að hann hefur greinilega ekki sokkið og hreint ótrúlegt að hann
hafi komist alla þessa leið án þess að einhver yrði hans var," sagði
Kári og bætti því við að líklega myndi beinagrind bátsins sennilega
skila sér hingað til lands. "Norska strandgæslan er líkega á leið hingað
til lands í sumar og þá er möguleiki á því að leyfar bátsins verði með í
för, þetta er þó óljóst enn og við erum að bíða frekari upplýsinga frá
Noregi."
Að neðan eru myndir frá Norsku strandgæslunni af vettvangi.
Tengd frétt: Skipstjóri björgunarskips slasast í brotsjó


Þetta er það eina sem sjá mátti af bátnum.


Norskt strandgæslufók þrífur bátinn á dekkinu á systurskipi Þórs. Á efstu myndinni má sjá hvernig Njörður lítur út eftir yfirhalninguna.
