25.06.2012 12:35

"Við trúðum þessu ekki"

mbl.is:


Hér sjást starfsmenn norsku strandgæslunnar þrífa bátinn eftir að hafa híft hann um borð í varðskipið. Allar myndir eru frá strandgæslunni í Noregi. mynd/Landhelgisgæsla Noregs

"Þetta er alveg með ólíkindum, eins og maður segir. Að hann skuli hafa fundist þykir mér mjög merkilegt," segir Kári Viðar Rúnarsson, formaður björgunarsveitarinnar Suðurnes, um björgunarbát félagsins sem fannst um sl. helgi við Noregsstrendur. Hann hafði þá verið týndur í tæp þrjú ár eða 996 daga.

Kári Viðar segir í samtali við mbl.is, að sjómenn á fiskiskipi hafi fundið björgunarbátinn, sem heitir Njörður Garðarsson, við Lofoten í Noregi sl. laugardag. Þeir höfðu samband við norsku strandgæsluna sem fór á staðinn á systurskipi íslenska varðskipsins Þórs.

"Þeir finna hann og þá er stefnið sem stendur upp úr. Þeir hífa hann um borð og hann var nú hálf drullugur og ógeðslegur, eins og maður getur rétt ímyndað sér eftir þrjú ár í sjó," segir Kári Viðar.

Mótorarnir á sínum stað

Merkingar björgunarsveitarinnar komu í ljós þegar báturinn var þrifinn. "Þeir gúggluðu bara eins og allir gera í dag," segir Kári Viðar og hlær. "Þeir hringdu í okkur og spurðu hvort það gæti verið að við ættum bát. Við vorum svo agndofa yfir þessu en við trúðum þessu ekki," segir hann.

Björgunarsveitin hafði samband við Landhelgisgæslu Íslands sem kannaði málið hjá norska hernum sem var með ljósmyndir. "Þá kemur bara í ljós að þetta er nú reyndar báturinn en það vatnar nú blöðrurnar á hann. En harðbotna skelin, sem er í botninum á honum, er nokkuð góð að sjá og mótorarnir eru á honum," segir Kári Viðar að einnig hafi verið að finna ýmiskonar annan búnað um borð í bátnum.

Björgunarbáturinn, sem er af gerðinni Atlantic 21, hvarf árið 2009 þegar hann fékk á sig brotsjó en björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein var þá með hann í togi, en Njörður átti að taka þátt í landsæfingu sjóbjörgunarsveita.

Átti ekki að geta sokkið

Báturinn fékk á sig brot um nóttina og við það slitnaði hann úr toginu. Kári Viðar segir að skipstjórinn hafi slasast og menn hafi farið strax að hlúa að honum. En þegar menn litu til baka þá sáu þeir að báturinn var farinn. Haft var samband við Gæsluna sem sendi þyrlu til leitar en án árangurs.

Kári Viðar fékk þær upplýsingar frá hönnuði bátsins að hann ætti ekki að geta sokkið nema að brotna í spón. Hann sagði það með ólíkindum að báturinn hefði sokkið. "Það verður gaman að hafa samband við þá [Konunglega sjóbjörgunarfélag Bretlands] og láta þá vita að hann hafi fundist," segir Kári Viðar.