25.06.2012 12:30
Fengu Mínu mús í trollið
"Við vorum á humarveiðum við Eldey og blaðran kom upp með trollinu. Hún var ótrúlega heilleg miðað við flakkið sem hafði verið á henni," segir Anna Ragnheiður Grétarsdóttir rannsóknamaður hjá Hafrannsóknastofnun á Ísafirði í samtali við Bæjarins besta.
Í síðustu viku blasti við starfsmönnum á rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni heldur óvenjuleg sjón þegar gasblaðra kom upp úr trollinu, líklega vegna þess að 17. júní var í vændum. Á gasblöðrunni var Walt Disney músin Mína, og þótt nær allur litur hefði verið afmáður af henni eftir sjósundið mátti enn greina andlitið geðþekka, sem hefur kætt börn í áratuga raðir.
Líklegt má þó telja að þessi Mína hafi þó grætt eitthvert barnið, enda áreiðanlega lagt óumbeðin í ferðalag sitt á hafsbotn.

