19.06.2012 00:11

Stafnesi KE fer á túnfiskveiðar í haust

Fiskifrettir.is:

Alls sóttu fjórir um leyfi til að veiða kvóta Íslands.


Túnfiskar sem komu í troll togarans Baldvins Njálssonar GK síðastliðið haust innan íslenskrar lögsögu.

 

Útgerð Stafness KE hefur fengið úthlutað túnfiskkvóta Íslendinga í ár. Fjórir sóttu um leyfið en tveir umsækjendur uppfylltu ekki sett skilyrði. Varpað var hlutkesti um það hvor hinna tveggja fengi leyfið og kom það í hlut útgerðar Stafnessins. 

Oddur Sæmundsson útgerðarmaður og skipstjóri á Stafnesi KE segist hlakka til að reyna veiðarnar en kvótinn er 25 tonn. 

"Við eigum svo til allan búnað til túnfiskveiðanna enda sá sami og ég notaði við lúðuveiðar í fyrr. Þær græjur koma upphaflega úr túnfiskveiðiskipi," segir Oddur í samtali við Fiskifréttir.  Hann  telur líklegt að túnfisk sé að finna sunnan við land enda hafi japanskt skip fengið mjög góðan afla þar í október á síðasta ári. 

Túnfiskleyfi Íslendinga hefur ekki verið nýtt undanfarin ár.