Í Vestmannaeyjum er Sjómannadagurinn
einn skemmtilegasti hátíðardagur ársins og við peyjarnir sem áttum
sjómenn sem feður sem og aðra ættingja vorum svo sannarlega stoltir af
því að tengjast þeim og þar með Sjómannadeginum. Þegar ég síðar gerði
sjómennskuna að ævistarfi mínu, gerði ég mér fljótt grein fyrir því að
þessi dagur er miklu meira en skemmtun í tvo daga.
31.05.2012 20:00
Sjómannadagurinn er ekki hátíð hafsins
Eyjafréttir.is:
Sigmar Þór Sveinbjörnsson skrifar:
Sjómannadagurinn er ekki hátíð hafsins
Sjómannadagurinn er órjúfanlegur
hluti af stéttarbaráttu og kynningu á starfi sjómanna. Í Vestmannaeyjum
má segja að allir tengist sjómönnum á einn eða annan hátt eins og víða
í útgerðarbæjum landsins. Á Sjómannadaginn kynnum við sjómannsstarfið,
minnumst þeirra sem hafa látist og sérstaklega þeirra sem látist hafa í
slysum á sjó, heiðrum aldna sjómenn og ekki hvað síst gerum við okkur
glaðan dag með fjölskyldum, vinum og skipsfélögum. Sjómannadagsráð
Reykjavíkur og Hafnarfjarðar sér Sjómannadaginn öðrum augum, ekki sem
Sjómannadag heldur sem dag hátíðar hafsins. Það er óskiljanlegt að
sjómenn skuli ekki mótmæla því að Sjómannadagurinn skuli vera tekinn
eignarnámi og nefndur Hátíð hafsins í Reykjavík með vitund og vilja
stærstu sjómannafélaga landsins.
Hafið hefur tekið líf
margra sjómanna sem voru ættingjar okkar, vinir og skipsfélagar. Þess
má geta til fróðleiks að á árunum 1962 til 1992 árin sem undirritaður
stundaði sjó frá Vestmannaeyjum, fórust 58 sjómenn sem voru á bátum frá
Eyjum, og eru þá taldir með þeir Eyjasjómenn sem fórust og stunduðu
tímabundið sjó annarsstaðar á landinu á sama tíma. Þessi tala um
dauðaslys á sjó er mun hærri og skiptir hundruðum ef taldir eru allir
þeir sjómenn sem fórust á þessu tímabili. Það er eitt af markmiðum
Sjómannadagsins að minnast þessara manna, og er minningarathöfn við
minnisvarðann við Landakirkju ein eftirminnilegasta stund
Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum . Finnst mönnum það viðeigandi að
minnast þeirra sjómanna sem farist hafa á hafi úti og margir þeirra
gista hina votu gröf, á degi sem kallaður er Hátíð hafsins? Að mínu viti
er þetta fráleitt og móðgandi fyrir íslenska sjómenn. Þessi gjörningur
Sjómannadagsráðs er farinn að smita út frá sér og sjómenn í
hugsunarleysi farnir að breyta nafni dagsins.
Í
Þorlákshöfn þar sem flest snýst um sjóinn, hafa þeir á síðustu árum apað
þetta eftir Reykjavíkurfélögunum og uppnefna Sjómannadaginn sinn
Hafnardaga. Sjómenn gera sér ekki grein fyrir því hvað Sjómannadagurinn
er sjómönnum mikilvægur hvað varðar kynningu á starfi sjómanna, hann er
okkar hátíðisdagur, ekki hátíð hafsins. Í lögum um Sjómannadaginn
segir m.a: Við tilhögun Sjómannadagsins skulu m.a. eftirfarandi markmið
höfð að leiðarljósi:
Að stuðla að því að
Sjómannadagurinn skipi verðugan sess í íslensku þjóðlífi. Að efla samhug
meðal sjómanna, hinna ýmsu starfsgreina sjómannastéttarinnar og stuðla
að nánu samstarfi þeirra. Að heiðra minningu látinna sjómanna, þá
sérstaklega þeirra sem láta líf sitt vegna slysfara í starfi. Að heiðra
fyrir björgun mannslífa og farsæl félags- og sjómannsstörf. Að kynna
þjóðinni áhættusöm störf sjómanna og mikilvægi starfanna í þágu
þjóðfélagsins.
Eitt af lagaskyldum
Sjómannadagsráðsins er líka: »Að beita sér í fræðslu og menningarmálum
er sjómannastéttina varða og vinna að velferðar- og öryggismálum
hennar.« Með því að uppnefna Sjómannadaginn Hátíð hafsins er ekki verið
að stuðla að því að Sjómannadagurinn skipi verðugan sess í íslensku
þjóðlífi, því síður eflir það samhug sjómanna eða kynnir þjóðinni
áhættusöm störf þeirra og mikilvægi. Engan starfandi sjómann hef ég hitt
sem er ánægður með þessa nafnbreytingu. Nokkrir segja þetta afleiðingu
þess að sum af stéttarfélögum sjómanna hafa verið sameinuð stórum
landfélögum og þar með hafa tekið völdin menn sem hafa lítinn skilning
og takmarkaðan áhuga á sjómannsstarfinu. Forustumenn í stéttarfélögum
sjómanna í Reykjavik hafa sagt mér að ef Faxaflóahafnir hefðu ekki tekið
þátt í kostnaði við hátíðahöld Sjómannadagsins, hefði dagurinn
sennilega lagst af. Hefur stjórn Faxaflóahafna þá sett þau skilyrði til
styrkja, að nafn Sjómannadagsins verði þurrkað út og breytt í Hátíð
hafsins? Samþykkti Sjómannadagsráð þessa nafnbreytingu? Hvað vakir fyrir
þeim 34 stjórnarmönnum sjómannafélaga og stjórn Faxaflóahafna að vilja
breyta nafni Sjómannadagsins? Hvers vegna má hann ekki heita sínu
rétta nafni, Sjómannadagur? Er þetta kannski einn liðurinn enn til þess
að þagga niður í sjómönnum? Allir hugsandi sjómenn hljóta að sjá að
þessi breyting á nafni Sjómannadagsins er niðurlægjandi fyrir
sjómannastéttina.
Skrifað af Emil Páli

