"Ég veit ekki hvort við getum kallað þetta mokveiði en það hefur verið mjög góð veiði," segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps. Óhætt er að segja að mikið líf hafi verið á Djúpavogi, þessu rúmlega 460 íbúa þorpi á Austurlandi, í síðustu viku.
Ekkert lát var á komu aðkomubáta í höfnina og lágu til að mynda 40 bátar við bryggju á miðvikudagskvöld sem höfðu verið á strandveiðum. Ástæða þessa mikla fjölda er sú að "mokfiskirí", eins og það er orðað á vefsíðu Djúpavogshrepps, hefur verið undanfarna daga á hinum svokölluðu Hvítingum sem er veiðisvæði sunnan og austan af Djúpavogi.
"Það hafa verið að koma hérna bátar víða að, meðal annars frá Fjarðabyggð, Seyðisfirði og úr Breiðdalsvík. Menn hafa verið að ná skammtinum sínum og þetta hefur náttúrulega sett mjög skemmtilegan svip á bæjarlífið," segir Gauti og bætir við: "Ég segi alltaf að allur fiskur sé góður fiskur. Það er sama hvaðan gott kemur. Þetta er mjög jákvætt fyrir sveitarfélagið."
Á miðvikudag höfðu 548 bátar fengið strandveiðileyfi og þar af höfðu 455 þegar hafið veiðar. Tæplega helmingur þeirra, eða 220, var á veiðum á svæði A, sem nær frá Eyja- og Miklaholtshreppi til Súðavíkurhrepps. Djúpavogshreppur tilheyrir hins vegar svæði C sem nær frá Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps. Í hlut þess kemur 551 tonn í maí, 661 tonn í júní, 661 tonn í júlí og 331 tonn í ágúst.
Gauti segir að mikil traffík hafi verið á miðvikudagskvöldið en bátunum hafi hins vegar farið sífjölgandi frá byrjun maímánaðar. "Við höfum verið að útvega mönnum húsnæði hérna á staðnum. Við höfum reynt að vera mönnum innan handar með það þannig að þetta er kærkomið. Þetta setur mjög skemmtilegan svip á bæinn."

