14.05.2012 00:00

Tveir GULLMOLAR

Fyrir okkur grúskaranna, er það mikill fengur þegar það rekur á fjörur okkar myndir eða upplýsingar sem við vissum ekki um áður. Varðandi myndir þá er það svo að nokkrar útfærslur á bátum, ýmist varðandi breytingar eða ný nöfn og númer, hafa ekki komið áður fyrir mín augu, þó einhverjir hafi kannski séð það áður. Það var því mikill fengur fyrir mig að fá þessar tvær flottu og góðu myndir, sem hafa verið teknar einhverjum árum fyrir miðja síðustu öld, því annar þeirra bar þetta nafn í örfá ár á fimmta áratugnum og brann síðan og sökk undir viðkomandi nafni.  Mun ég nú birta þær báðar ásamt því að segja sögu viðkomandi báta,


                           344. Björn EA 396 © mynd frá velunnara síðunnar


                          Hólmsberg GK 395 © mynd frá Velunnara síðunnar

Hér kemur saga beggja bátanna:

(Björn EA 396)

Smíðaður í Faaborg, Danmörku 1916 og stækkaður 1945. Kom fyrst til landsins og þá til Kljástrandar, 30. jan. 1917 og var farinn til línuveiða suður fyrir land tíu dögum síðar. Talinn ónýtur 23. nóv. 1965 og stóð beinagrindin af honum uppi vel á annan áratug í Dráttarbraut Eyrarbakka.

Nöfn: Dröfn TH 224, Dröfn EA 396, Björn EA 396 og Björn KE 95


(Hólmsberg GK 395)

Smíðaður í Harstad, 1920 og endurbyggður hjá Dráttarbraut Akureyrar, árið 1943. Brann og sökk á síldveiðum skammt frá Grímsey, 23. ágúst 1947.

Nöfn: Kolbeinn ungi EA 450 og Hólmsberg GK 395.