09.05.2012 18:04

Samherji vinnur afla strandveiðibáta

ruv.is:

Kaldbakur við bryggju á Akureyri. Mynd: Björgvin Kolbeinsson

Frystihús Samherja á Dalvík og Akureyri vinna nú afla frá strandveiðibátum í stað þess að senda eigin skip til veiða. Vegna aukins framboðs og verðlækkana á fiskmörkmuðum með tilkomu strandveiðanna þykir þetta fyrirkomulag hentugra fyrir fyrirtækið.

Þrjú skip Samherja, Kaldbakur, Björgúlfur og Björgvin, liggja nú við bryggju á meðan verið er að vinna afla sem keyptur hefur verið af fiskmarkaði frá strandveiðibátum. Samkvæmt heimildum RÚV ákvað fyrirtækið að nýta sér þá verðlækkun sem orðið hefði á þorski og ýsu eftir að strandveiðar hófust og leggja ísfisk skipum sínum á meðan framboð af fiski sé svona gott . Skipin munu þó halda aftur til veiða eftir viku,  en reiknað er með því að þeim verði aftur þegar strandveiðarnar ná hámarki á nýjan leik í byrjun næsta mánaðar.

Samkvæmt upplýsingum RÚV er Samherji  búinn með mikið af sínum aflaheimildum í bolfiski en til stóð að fiskvinnsluhúsin fengju afla frá DFFU, dótturfélagi Samherja í Þýskalandi, en vegna rannsóknar Seðlabanka Íslands á meintum lögbrotum fyrirtækisins ákvað DFFU að landa ekki á Íslandi meðan málið væri í gangi. Þar sem ljóst er að kvóti Samherja mun ekki duga út fiskveiðiárið, hafi fyrirtækið ákveðið að bregðast við og kaupa afla strandveiðibáta á fiskmarkaði á hagstæðu verði.  Forsvarsmenn Samherja vildu ekki tjá sig um málið við RÚV.