03.05.2012 07:15
Ekki hægt að kvarta undan fiskleysi
"Segja má að slóðin sé friðuð, við erum nánast einir. Bátarnir eru búnir með kvótann og þeir sem eru eitthvað að róa reyna að ná í eitthvað annað en þorsk."
Þetta segir Brynjar Kristmundsson, skipstjóri á Steinunni SH, eftir löndun í Ólafsvík. Steinunn fór út um klukkan sjö í gærmorgun og var komin í land fyrir fjögur. Aflinn var tæp 43 tonn og þar af 25 tonn úr einu kasti.
Mjög góð veiði hefur verið á öll veiðarfæri í Breiðafirði frá áramótum, eins og raunar undanfarin ár. Margir strandveiðibátar voru búnir að ná dagsskammtinum og komnir inn til löndunar um hádegi.
Steinunn SH er á snurvoð og hóf áhöfnin veiðar að nýju eftir langt frí sem tekið var vegna hrygningarstopps og til að ljúka ekki kvótanum of snemma. Landað var þrjátíu tonnum fyrsta daginn og því er búið að veiða rúm 70 tonn af þeim 230 tonna kvóta sem geymdur var. "Það virðist vera töluvert af fiski, ekki er hægt að kvarta," segir Brynjar og vonast til að geta viðhaldið gömlu hefðinni og hætt á lokadaginn, 11. maí.
