26.04.2012 00:00

Gamli Þór seldur í brotajárn

ruv.is

Þór lítur út eins og draugaskip síðan hann var notaður sem leikmynd í kvikmyndinni Reykjavík Whale Watching Massacre. Hann var dreginn til Njarðvíkur í dag. Mynd: Ægir Örn Valgeirsson

"Þetta sögufræga skip er komið að endalokum. Við erum að fara að taka það niður og breyta því í gjaldeyri," segir Einar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Hringrásar, sem tók í dag við gamla varðskipinu Þór sem verður breytt í brotajárn á næstu vikum.

Þór var dreginn til hafnar í Njarðvík í dag en skipið hefur legið við bryggju í Gufunesi undanfarið. Þar verður það tæmt af spilliefnum og gert tilbúið til niðurrifs en skipið verður tekið niður í Helguvík. "Þetta fer í brotajárn á erlendan markað. Þannig fær skipið sitt framhaldslíf sem ég get ekki fullyrt í hvaða formi verður," segir Einar.

Þór er sögufrægt skip. Skipið var keypt til landsins árið 1951 og gegndi stóru hlutverki í þorskastríðinu. Eftir að það var aflagt sem varðskip hefur það gegnt ýmsum hlutverkum. Um skeið var rekinn veitingastaður um borð í skipinu og upp úr síðustu aldamótum var það málað gyllt og hugmyndir voru uppi um að það yrði að skemmtistað á Íbíza eða í London. Ekkert varð af því. Skipið var hins vegar notað sem leikmynd við tökur á kvikmyndinni Reykjavík Whale Watching Massacre. Þá var það látið líta út sem ryðdallur sem útskýrir draugalegt útlit skipsins enn í dag.

"Þór má muna fífil sinn fegurri og er ekki lengur það flaggskip sem það var," segir Einar en viðurkennir að mörgum þyki leiðinlegt að sjá hvernig komið er fyrir skipinu.

Ægir Örn Valgeirsson tók þessar myndir í dag þegar skipið var dregið til Njarðvíkur. Hann tók einnig myndbandið sem hægt er að horfa á hér að neðan. 

Gamla varðskipið Þór dregið from Skipaþjónusta Íslands on Vimeo.