16.04.2012 14:09
Perla dýpkar í Akraneshöfn
|
|
|
|
|
Áhöfnin á dýpkunarskipinu Perlu byrjaði í gær að dýpka við Sementsverksmiðjubryggjuna á Akranesi. Valentínus Ólason hafnarvörður hjá Faxaflóahöfnum segir þetta tilraun til að sjúga upp sand sem safnast hefur við fremri hluta bryggjunnar. "Uppsjávarveiðiskipin hafa oft legið þarna milli vertíða og nú var svo komið að þau voru farin að snerta botn á fjöru. Þá þarf að vera hægt að taka þarna upp að bryggju sementsflutningaskip ef innflutningur á sementi hefst þannig að dýpið þarf að vera nóg. Þarna þarf að dýpka fleyg í átt að litlu bryggjunni. Síðan er meiningin að dýpka meira í höfninni en til þess þarf gröfupramma. Þetta þarf að gera á nokkurra ára fresti því það berst alltaf einhver sandur inn í höfnina." |
|
Valentínus segir að á næsta ári verði enn frekari dýpkun við Akraneshöfn og meininginn að dýpka í innsiglingunnni. "Það er tíu metra dýpi við hafnargarðinn en mælingar okkar sýna að það hafa myndast sandhólar í innsiglingunni. Það getur orsakað ókyrrð í höfninni þegar aldan sem kemur fyrir grjótvarnargarðinn nær sér upp á þessum grynningum. Við vorum með mælingabátinn Baldur hérna við mælingar fyrir helgi en þá bilaði staðsetningarbúnaður þar um borð þannig að hann þarf að koma aftur." Valentínus sagði að ekki væri ljóst hve mikið Perla næði að sjúga þarna upp af sandi en skipið yrði í Akraneshöfn í einhverja daga. |
1402. Perla, í Akraneshöfn í gær © mynd skessuhorn.is
