05.04.2012 14:00

Grásleppukarlar kærðir fyrir of mörg net í sjó

Fyrir síðustu helgi fékk ég fregnir af því að ákveðinn, nafngreindur bátur hafi verið tekinn með alltof mörg grásleppunet og látinn draga allt upp fyrir helgi! Þar sem mér tókst ekki að fá þetta staðfest, né fann nokkuð um þetta á þeim vefsíðum sem gefnar eru út á viðkomandi stöðum beið ég með að birta fréttina. Nú kemum hinsvegar steðfesting á því, en samkvæmt henni eru það fleiri en einn bátur og því bíð ég með að birta nafn þess sem ég frétti um.

Þetta kom fram um málið í Fiskifréttum í gær:

Talning eftirlitsmanna leiddi í ljós að fjöldi neta var langt umfram það sem leyfilegt

Grásleppa

Fiskistofa í samstarfi við Landhelgisgæsluna hefur haft eftirlit með fjölda grásleppuneta í sjó hjá bátum sem stunda þessar veiðar. Á dögunum  fóru eftirlitsmenn Fiskistofu um borð í grásleppubáta  úti fyrir Norðurlandi eftir að skoðun á gögnum og veiðarfærum á veiðislóð gaf  vísbendingar um að netafjöldi væri  umfram það sem leyfilegt er. Eftirlitsmennirnir  voru viðstaddir er öll net viðkomandi báta  voru dregin.  Í framhaldi að því var stjórnendum þeirra  gert að færa öll net sem voru umfram leyfilegan fjölda í land.
Talning eftirlitsmanna Fiskistofu  leiddi í ljós að fjöldi neta í sjó var langt umfram það sem heimilt er. Jafnframt voru gerðar nokkrar athugasemdir við merkingar veiðarfæra. Nokkur mál  hafa verið kærð til lögreglu ásamt því að vera til meðferðar hjá Fiskistofu.

Fiskistofa og Landhelgisgæslan munu halda þessu samstarfi áfram með það að markmiði að reglum um hrognkelsaveiðar sé framfylgt, segir ennfremur í fréttatilkynningu frá Fiskistofu.