17.03.2012 08:23
Pálsfiskur á Vestfjarðarmiðum
bb.is
Svokallaður Pálsfiskur veiddist á Vestfjarðamiðum í byrjun vikunnar en slíkur fiskur er afar sjalgæfur hér við land. "Hann veiddist fyrst við Ísland árið 2002, einn fiskur. Síðan gerðist það árið 2008 að það fréttist af fimm pálsfiskum við landið, en síðan ekki meir fyrr en núna," segir Jónbjörn Pálsson sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun og bætir við að fiskurinn sé "frændi pétursfisks. Fiskurinn vakti þó nokkra athygli eftir að hann kom á land á Ísafirði eftir hefðbundna veiðiferð og var kallað á bb.is til að leita upplýsinga um hann. Þá kunnu reyndustu sjómenn ekki deili á honum enda ekki furða þar sem um er að ræða fyrsti pálsfiskinn sem veiðist á Vestfjarðamiðum svo vitað sé.
Um er að ræða hávaxinn fisk og mjög þunnvaxinn með allstóran haus og nokkuð stór augu. Kjaftur er mjög stór og þverstæður og geta skoltar glennst vel út. Tennur á skoltum eru smáar til meðalstórar. Bakuggi er tvískiptur og er fremri hluti hans hár og broddgeislaður og teygjast fremstu geislar hátt upp en aftari hluti er lægri og með liðgeislum. Þrír fremstu geislar raufarugga eru broddgeislar en aðrir geislar liðgeislar. Liðgeislahlutar bak- og raufarugga eru jafnlangir og svipaðir að lögun. Eyruggar eru frekar stuttir en kviðuggar sem eru framan við eyrugga mun lengri. Sporðblaðka er stór. Spyrðustæði er mjög grannt. Rák er greinileg og liggur í stórum boga yfir eyruggum. Ekkert hreistur er á haus né hliðum en 7-8 hreisturflögur eru eftir kviði á milli kviðugga og raufar og 7-9 stórar bogadregnar beinflögur eru meðfram rótum bakugga og 5-7 við rætur raufarugga.
Hann er silfurgrár, dökkur blettur á miðjum fiski, uggahimnur dökkar. Svartir blettir eru á víð og dreif á bol og stirtlu ungra fiska. Þessi tegund hefur veiðst í Norðaustur-Atlantshafi norðvestur, vestur og suðvestur af Írlandi og í Biskajaflóa suður fyrir Marokkó í Afríku. Í Suðaustur-Atlantshafi frá Walvisflóa í Namibíu og suður fyrir Góðrarvonarhöfða og þaðan inn í Indlandshaf. Í Norðvestur-Atlantshafi undan austurströnd Ameríku frá landgrunnsbrúnum við Sable-eyju undan Nýja-Skotlandi til Norður-Karólínu og allt suður til Argentínu. Pálsfiskur er miðsjávar- og botnfiskur sem veiðst hefur á um 50-600 metra dýpi en er mest á 200-300 m og oft í smáum torfum. Fæða er einkum fiskar. Um hrygningu er lítið vitað nema undan Vestur-Afríku fer hún fram að sumri til.
Skrifað af Emil Páli
