10.03.2012 22:30

Náðu neyðarsendi úr sjónum við Herdísarvík

mbl.is:

TF-GNÁ, þyrla Landhelgisgæslunnar.

TF-GNÁ, þyrla Landhelgisgæslunnar. mbl.is

Farþegaflugvélar námu merki frá neyðarsendi í morgun og tilkynntu til Landhelgisgæslunnar. TF-GNÁ fór að leita að sendinum og fann hann í hafinu um 20-30 km suður af Herdísarvík. Sigmaður Gæslunnar náði sendinum úr sjónum en hann er á stærð við kaffibrúsa.

Um klukkan átta í morgun fór að berast fjöldi tilkynninga frá farþegaflugvélum um að þær næmu merki frá neyðarsendi á suðvesturhorni landsins. Björgunarsveitir á Reykjanesi og í Vestmannaeyjum voru beðnar að svipast um eftir sendinum en merki hans voru m.a. miðuð út með hjálp gervitungla. Þyrla Gæslunnar, TF-GNÁ var einnig send til leitar.

Áhöfn TF-GNÁ kom eftir stutta leit auga á sendinn, sem er ekki stærri en kaffibrúsi, í sjónum um 15 mílur suður af Herdísarvík. Sigmaður frá Gæslunni seig að sendinum og náði honum.

Í ljós kom að sendirinn var úr björgunarbát togarans Ásbjarnar sem hafði farið útbyrðis á miðvikudaginn, 7. mars. Áhöfnin á Ásbirni hafði reyndar ekki orðið vör við að báturinn var farinn útbyrðis fyrr en hún var látin vita af því. Það tókst samdægurs að koma bátnum um borð en neyðarsendirinn varð eftir í sjónum. Hann var svo til friðs á reki í sjónum í þrjá daga þar til í morgun að hann fór að senda neyðarmerki.