27.02.2012 09:16

Flest fiskiskip með skráða heimahöfn á Vestfjörðum

bb.is

Ísafjarðarhöfn.
Ísafjarðarhöfn.
Flest fiskiskip voru með skráða heimahöfn á Vestfjörðum í árslok 2011 eða 375 skip sem er um 23% fiskiskipastólsins, að því er fram kemur í nýjum tölum Hagstofunnar. Alls voru 1.655 fiskiskip á skrá hjá Siglingastofnun í lok ársins og hafði þeim fjölgað um 30 frá árinu áður. Næst flest skip, eða 308, voru með heimahöfn á Vesturlandi eða tæp 19%, en fæst skip voru með skráða heimahöfn á Suðurlandi, eða 77. Opnir bátar voru flestir á Vestfjörðum, eða 211, og á Vesturlandi voru þeir 168. Fæstir opnir bátar voru með heimahöfn á Suðurlandi, eða 18. Vélskip voru einnig flest á Vestfjörðum, 158 talsins, en fæst á Norðurlandi vestra, 49 skip. Flestir togarar voru hinsvegar með heimahöfn skráða á höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi eystra, ellefu í hvorum landshluta. Sex togar eru skráðir á Vestfjörðum en fæstir togarar voru skráðir á Vesturlandi, eða fjórir.

Fiskiskipum á Vestfjörðum fjölgaði um 27 milli áranna 2010 og 2011 en skipin voru 348 í árslok 2010. Þeim hefur hins vegar fækkað síðastliðin tólf ár en skráð fiskiskip á Vestfjörðum voru 381 í árslok 1999. Þá hefur meðalaldur skipa á Vestfjörðum hækkað, en meðalaldurinn var 22 ár árið 2011 en var 18 ár árið 1999. Þetta er aðeins minna en á landsvísu þar sem meðaldurinn var 24 ár í árslok 2011. Mest hefur meðalaldur togara hækkað, en meðalaldurinn var 20 ár árið 1999 en var kominn í 30 ár árið 2011. Þetta er aðeins meira en á landsvísu en þar var meðalaldur togara 27 ár í árslok 2011.