16.02.2012 12:30

Brúarfoss rak í átt að landi í vitlausu veðri

dv.is:

Vélarvandamál kom upp - Mikill viðbúnaður
Brúarfoss, flutningaskip Eimskips, í vandræðum vestan af Garðskaga í nótt. 
         Brúarfoss, flutningaskip Eimskips, í vandræðum vestan af Garðskaga í nótt. Mynd: Eimskip

Um klukkan þrjú í nótt höfðu varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar samband við flutningaskipið Brúarfoss þar sem skipið var statt V-af Garðskaga í hefðbundinni siglingaleið í um 6 sjómílna fjarlægð frá landi. Tóku varðstjórar eftir í ferilvöktunarkerfum að skipið rak í átt að landi.

Haft var samband við skipið og fengust þær upplýsingar að skipið átti við vélavandamál að stríða og voru vélstjórar um borð að vinna í málinu. Ákveðið var að kalla strax í varðskipið Ægi sem var statt S- af Grindavík auk þess var haft samband við togarann Höfrung 3 sem staddur var á Stakksfirði. Voru skipin beðin um að sigla með auknum hraða á staðinn. Þar sem dróst að koma vélum skipsins í gang og skipið rak hratt að landi var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út í viðbragðsstöðu á Garðskaga.. Einnig voru björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á svæðinu kallaðar út og haft var samband við fjarskiptamiðstöð lögreglunnar sem upplýsti lögreglu á svæðinu.

Mjög slæmt var á staðnum, Vestan stormur og ölduhæð 7 metrar.

Var stjórnstöð Landhelgisgæslunnar allt ferlið í nánu samstarfi við öryggisnefnd Eimskipafélags Íslands.

Þegar Brúarfoss átti um 2 sjómílur eftir upp að grynningum lét skipið akkeri falla sem hægði á reki. Jafnframt var Höfrungur 3 þá kominn að honum en varðskipið Ægir átti um einnar klukkustundar siglingu eftir að skipunum. Vélar Brúarfoss komust um það leyti í gang og sigldi skipið í átt frá landi til að koma sér úr hættu í fylgd Höfrungs 3. Hélt skipið til Vestmannaeyja í fylgd varðskipsins Ægis.