10.02.2012 09:00
Flest loðnuskipin fylltu sig við Grímsey
"Þetta er stór og falleg loðna og virðist vera mikið af henni þarna," segir Guðjón Jóhannsson, skipstjóri á loðnuskipinu Hákoni EA. Skipið fékk gott kast í gærmorgun við Grímsey og var í gærkvöldi á leið til Neskaupstaðar.
Tonnin 1300 fékk Hákon við Grímsey í fyrrinótt, megnið í síðasta kastinu. Í Morgunblaðinu í dag segir Guðjón, að flest skipin sem þarna voru hafi fyllt sig. Nóg er af loðnu á stóru svæði, að því er virðist frá Húnaflóa og suður fyrir Hvalbak.
"Veðrið hefur sett svakalegt strik í reikninginn. Það var ekkert hægt að vera við þetta við suðausturströndina og ég ákvað að keyra norður," segir Guðjón. Þar var gott veður í gærmorgun, í fyrsta skipti síðan Hákon hóf loðnuveiðar í vetur. Og mikið var af svartfugli. "Það hefði liðið yfir Svandísi Svavarsdóttur [umhverfisráðherra] ef hún hefði séð það."
