03.02.2012 15:00

Ísbjörn í Ísafjarðarhöfn

bb.is:

Ísbjörn við Ísafjarðarhöfn.
Ísbjörn við Ísafjarðarhöfn.

Skuttogarinn Ísbjörn ÍS 304 kom til heimahafnar á Ísafirði í fyrsta sinn síðdegis í gær. Gunnbjörn ÍS 302 sem var að koma inn til löndunar á Ísafirði, var samferða Ísbirninum inn Djúpið og að bryggju. Nú tekur við vinna við að gera skipið tilbúið til veiða og fara næstu vikur í það. "Við gefum okkur allavega febrúar í að gera skipið klárt fyrir veiðarnar. Iðnaðarmennirnir okkar fara nú á fullt við að gera allt klárt," segir Jón Guðbjartsson stjórnarformaður rækjuvinnslunnar Kampa og eigandi útgerðarfélagsins Birnis sem stóðu sameiginlega að kaupum skipsins.

Með tilkomu skipsins er ætlunin að treysta enn frekar hráefnisöflun fyrir rækjuverksmiðjuna Kampa af eigin skipum. Skipið hét áður Borgin og hefur undanfarin ár verið skráð í Litháen en er smíðuð í Noregi árið 1984 fyrir grænlenska útgerðaraðila og fékk þá nafnið Vilhelm Egede. Það var síðan selt til Íslands og hét þá Gissur ÁR og Hersir ÁR. Síðar var skipinu flaggað út undir litháískum fána og fékk þá nafnið Borgin. Undanfarin 2-3 ár hefur skipið legið í höfn í Reykjavík eftir að fyrrverandi útgerð komst í þrot og var skipið komið í eigu Íslandsbanka.
Skipið er 1.103 brúttótonn að stærð með 2.300 hestafla aðalvél. Frystigeta er um 40 tonn á sólarhring og það hefur 450 tonna burðargetu af frosnum afurðum. Gert er ráð fyrir að í áhöfn verði 12 menn í hverri veiðiferð þannig að væntanlega verður heildarfjöldi í áhöfn 20 - 25 menn. Að sögn Jóns hefur gengið ágætlega að manna skipið þó því sé enn ekki full lokið.