02.02.2012 13:35

Menn halda fast í plássin

grindavik.is



 "Auðvitað er leitt að geta ekki tekið í áhöfnina þessa stráka sem vilja komast á sjó. Nú er hins vegar mun þrengra um alla vinnu og menn sleppa ekki því sem þeir hafa. Hjá okkur hefur verið sami kjarninn í áhöfn sl. sex til sjö ár og sáralítil hreyfing á mannskap," segir Ólafur Óskarsson skipstjóri á Kristínu GK 157 sem er eitt fimm línuskipa í útgerð Vísis hf. Í haust lagði báturinn upp á Húsavík, er núna fyrir austan en verður vetrarvertíðina í Grindavík þar sem höfuðstöðvar Vísis eru.

 "Það er mikið hringt. Bæði hafa samband menn sem eru þrælvanir og svo strákar sem langar að spreyta sig á þessu og allir þessir segja mér að nánast ógjörningur sé að komast í skipsrúm. Þar kemur bæði til að menn halda fast í það sem þeir hafa og önnur veigamikil ástæða er sú að skipum hefur fækkað," segir Ólafur sem hefur verið til sjós síðan á unglingsaldri.

En hvað þurfa menn að hafa ef þeir vilja helga sig sjómennskunni?
Áhugi og dugnaður skipta mestu, segir Ólafur. "Þetta þurfa að vera frískir menn, duglegir og sæmilega að manni. En það er ekki bara þetta sem ræður," segir Ólafur og heldur áfram:

"Núna þurfa menn til dæmis að hafa farið í gegnum Slysavarnaskóla sjómanna svo megi lögskrá þá í áhöfn og auðvitað er ekkert nema gott eitt um slíkt að segja," útskýrir Ólafur sem segir aðspurður að laun sjómanna í dag séu alveg ágæt. Hjá sjómönnum á línubátum sé hásetahlutur á mánuði oft í kringum
1.200 þúsund kr. og stundum hærri - en bestar eru tekjurnar yfir veturinn þegar þorskurinn
gefur sig.

Viðtal: Finnur.is