15.01.2012 20:30

Írski togarinn Tit Bonhomme C331 fórst við Írland í morgun

Einum var bjargað en fimm er saknað eftir að írskur togari sökk undan strönd Írlands í morgun.

Svo virðist sem togarinn, Tit Bonhomme, hafi steytt á skeri skammt frá sjávarþorpinu Union Hall syðst á Írlandi. Skipið var á leið til hafnar eftir að hafa lent í erfiðleikum við eyjar, sem nefnast Adam og Eva og eru skammt frá. 

Skipið sendi frá sér neyðarkall um klukkan 6 í morgun en síðan rofnaði allt fjarskiptasamband.  Írska strandgæslan sendi þyrlur til leitar frá Shannon og Waterford. Þá hafa björgunarskip verið send á svæðið. 

Einn úr áhöfn skipsins fannst í sjónum um klukkan 8 í morgun og var hann fluttur á sjúkrahús í Cork. Er hann sagður vera Egypti. Enn er fimm úr áhöfninni saknað en skilyrði til leitar eru ekki góð, hvasst og mikill öldugangur. 


               Tit Bonhomme C 331, sem fórst við Írland í morgun © mynd Irish Trawler