06.01.2012 15:45

Gera það gott í Noregi

grindavik.is:

Gera það gott í Noregi

Nýverið afhenti Bátasmíðastöðin Seigla ehf. á Akureyri bátinn Saga K, sem er stærsti plastfiskibátur sem smíðaður hefur verið á Íslandi eins og lesa má um hér. Saga K er smíðuð fyrir útgerðarfélagið Eskøy AS í Tromsø í Noregi en þrír Íslendingar, þar af tveir grindvískir bræður, standa að því félagi. Ítarlega er sagt frá nýja bátnum og útgerðinni í nýjustu Fiskifréttum.

Saga K er 15 metra langur bátur og flokkast því sem smábátur í norska kerfinu. Skráð lengd er nánar tiltekið 14,98 metrar og skráð breidd er 5,70 metrar. Mesta lengd, frá trjónu framan á og með kassa að aftan, er hins vegar yfir 18 metrar og mesta breidd er 5,80 metrar. Hæðin er mikil á bátnum, um 8 metrar, enda er hann þriggja þilfara.

Þess má geta til samanburðar að mesta hæð á 15 tonna plastfiskibátum hér á landi er um 5 metrar. Brúttótonn skipta ekki miklu máli í norska kerfinu en Sverrir sagði að báturinn mældist um 50 brúttótonn væri hann skráður hér á landi.

Íslendingaútgerðin Esköy í Tromsö í Norður-Noregi hefur vakið athygli þar í landi fyrir að fara aðrar leiðir en þekkjast í norskri smábátaútgerð. Ástæða þess að við ákváðum að semja um smíði á nýjum báti var sú að fyrir rúmu ári misstum annan af bátunum okkar, sem hét Saga K eins og þessi nýi," sagði Bjarni Sigurðsson, einn eigenda Esköy útgerðarinnar þegar Fiskifréttir inntu hann eftir aðdraganda þess að þeir réðust í nýsmíðina, en meðeigendur hans í útgerðinni eru bræðurnir Helgi og Hrafn Sigvaldasynir frá Grindavík.

,,Við þurftum sem sagt að fá nýjan bát og töldum skynsamlegast að láta smíða bát af sömu stærð og gerð og hinn báturinn okkar Ásta B er. Sá var smíðaður hjá Trefjum í Hafnarfirði. Okkur lá mikið á að fá nýjan bát sem allra fyrst en þar sem Trefjar gátu ekki afgreitt slíkan bát nógu fljótt að okkar mati sömdum við um kaup á báti sem þegar var í smíðum hjá Seiglu á Akureyri. Samningurinn gerði ráð fyrir að báturinn yrði afhentur 15. júlí síðastliðinn en afhendingin dróst alveg fram í miðjan desember sem auðvitað var bagalegt fyrir okkur. Að því frátöldu erum við ánægðir með bátinn og bindum vonir við að hann reynist vel."

Allir þrír eru skipstjórar. Helgi verður skipstjóri á hinni nýju Sögu K og Sævar Ásgeirsson á móti honum. Bjarni verður áfram skipstjóri á Ástu B og Hrafn verður á móti honum. Stór hluti áhafnar bátanna er Íslendingar sem kunna vel til verka um borð í beitningarvélabátum. Áætlað er að hin nýja Saga K hefji veiðar fljótlega á nýju ári.

Esköy útgerðin hefur vakið athygli í Noregi fyrir að fara öðrum vísi að en gerist og gengur í norska smábátageiranum. Íslendingarnir gera út öfluga báta með öflugum beitningarvélum og eru með skiptiáhafnari sem gerir þeim kleift að halda bátunum úti sex daga í viku árið um kring. Þá hafa þeir einbeitt sér að veiðum á ýsu sem er utan kvóta og fyrir vikið eru þeir aflahæstu ýsuveiðimenn smábátaflotans í Noregi eins og vakin hefur verið athygli á í norska sjávarútvegsblaðinu Fiskeribladet/Fiskaren. Hlutfall ýsu af heildarafla Ástu B á árinu 2011 var um 64%.

Sjá nánar í Fiskifréttum.