23.12.2011 20:20
Fundu lítið af loðnu
Hafrannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson. mbl.is
Magn kynþroska loðnu var miklu minna en búast hefði mátt við eftir ungloðnumælingar haustið 2010. Þetta er niðurstaða loðnurannsókna sem Hafrannsóknarstofnun stóð fyrir í desember. Stofnunin getur ekki gefið út upphafsaflamarki á grundvelli þessara mælinga.
Á undanförnum árum hefur ungloðna verið mæld í október - nóvember en vegna verkfalls á rannsóknaskipunum hófst leiðangurinn nú seinna en áætlað var eða 29. nóvember á Árna Friðrikssyni og 30. nóvember á Bjarna Sæmundssyni. Bæði skipin luku leiðangrinum 10. desember.
Árni Friðriksson kannaði svæðið frá Kolbeinseyjarhrygg vestur í Grænlandssund en Bjarni Sæmundsson sem var jafnframt í sjórannsóknum kannaði svæðið austan Kolbeinseyjarhryggs. Engin loðna fannst austan Kolbeinseyjarhryggs en loðna fannst með kantinum vestan Kolbeinseyjar frá um 20°30' v.l. allt að sunnanverðu Grænlandssundi. Á austanverðu svæðinu var loðnan mikið blönduð, ókynþroska ungloðna og fullorðin loðna, á miðbiki útbreiðslunnar var meiri hlutinn fullorðin loðna og vestast á svæðinu var mest ókynþroska ungloðna. Ekki var unnt að kanna grænlenska landgrunnið og svæði við Austur-Grænland vegna rekíss og ísmyndunar.
Lítið mældist af loðnu í leiðangrinum og var fjöldi ungloðnu svipaður og í lélegu árunum frá 2004-2009 og aðeins um 10% af því sem mældist haustið 2010. Í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun segir að ekki verði á þessum grunni unnt að mæla með upphafsaflamarki haustið 2012.
Í fyrra haust voru ungloðnumælingarnar gerðar á tímabilinu 24. september til 11. október eða um tveimur mánuðum fyrr. Þá var hluti ungloðnunnar á því svæði sem unnt var að kanna nú en langmest af loðnunni, bæði ungloðnu og eldri loðnu, var á grænlenska landgrunninu og norður með Austur-Grænlandi allt norður fyrir Scoresbysund (71° n.br.), eða á svæði sem ekki var unnt að kanna núna vegna íss. Ekki verður fullyrt um hvort dreifing loðnunnar er með sama hætti og í fyrra en ef það er raunin var stærstur hluti loðnustofnsins utan rannsóknasvæðisins í ár. Reiknað er með að gerð verði tilraun til frekari ungloðnumælinga á nýju ári ef aðstæður leyfa.
