14.12.2011 21:27
Norskt dráttarskip tekur Ölmu í tog vegna bilunar í Þór
Sérhæft dráttarskip frá Noregi er væntanlegt til Fáskrúðsfjarðar þaðan sem það mun draga flutningaskipið Ölmu í slipp á Akureyri. Upphaflega stóð til að varðskipið Þór myndi taka verkefnið að sér, en vegna bilunar í varðskipinu þá varð ekkert af því.
Garðar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Nesskipa sem eru með umboð fyrir útgerð Ölmu, segir í samtali við mbl.is að Landhelgisgæslan hafi sýnt málinu mikinn skilning og velvilja og Gæslan hafi boðist til að senda varðskipið Ægi í verkefnið í stað Þórs. "Það var hins vegar niðurstaða tryggingafélags Ölmu að hún skyldi dregin með sérhæfðu dráttarskipi," segir Garðar.
Aðspurður segir Garðar að norska dráttarskipið sé væntanlegt til landsins næstkomandi föstudagsmorgun, en það siglir til Íslands frá Álasundi í Noregi.
Það muni svo taka um tvo daga að sigla frá Fáskrúðsfirði til Akureyrar þar sem Alma verður tekin upp í þurrkví og unnið verður að viðgerð. Líklega verði siglt norður með Ölmu á föstudag eða laugardag, en það fari eftir veðri.
Smíða nýtt stýri í Hollandi
Alma missti stýrið í Hornafjarðarósi í byrjun nóvember og gat því ekki haldið ferð sinni áfram. Í lok nóvember var svo lokið við að umskipa freðfiskfarmi úr flutningaskipinu yfir í systurskip þess Green Lofoten.
Garðar segir að unnið sé að því að smíða nýtt stýri í flutningaskipið í Hollandi. "Ég geri ráð fyrir því að það verði komið til landsins í fyrstu vikunni í janúar," segir Garðar. Menn voni að það verði ekki meira en tveggja til þriggja daga vinna að koma stýrinu fyrir og þá eigi skipið að vera fært í flestan sjó.
