Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra upplýsti á Beinni línu DV að hann hefði margoft tekip upp mál þeirra sjómanna sem hafa verið dæmdir vegna kvótalagabrota og að hann hafi bent á að álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sé ekki virt.
Ögmundur var spurður: "Nú ert þú mannréttindaráðherra, af hverju sér þú ekki til þess að álit mannréttinganefndar Sameinuðu þjóðanna um brot á fiskveiðistjórnunarkerfinu sé virt?" og svaraði sjálfur Ég hef ritað ríkislögmanni og leitað álits hans á því hvort mér sé stætt á því að koma til móts við sjómenn sem dæmdir hafa verið vegna kvótalaga. Á hinu hef ég margoft vakið máls í ríkisstjórn.
Örn Snævar Sveinsson og Erlingur Sveinn Haraldsson eru sjómenn sem hafa fengið álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að íslenska ríkið hafi brotið á þeim með því að veiða án kvóta. Í samtali við DV sagði Örn Snævar að hann fagnaði því að Ögmundur væri byrjaður að huga að þessum málum. Örn og Erlendur sendu honum bréf í júlí á þessu ári þar sem þeir kröfðust þess að ríkið bregðist við álitinu, en í því felst að ríkið viðurkenni að það sé skaðabótaskylt gagnvart tvímenningunum og að það verði að leggja fiskveiðikerfið af eins og það er í dag.
"Á meðan það eru mannréttindaníðingar í ríkisstjórn, þá þarf ekki að sinna neinu það er nefnilega málið," segir Örn. "Ég veit ekki hvað ég á að segja, ég hef hingað til ekki séð neitt um það að hann hafi gert neinn skapaðan hlut. Ég er auðvitað ánægður með það ef hann hefur gert það, en ef aðrir í ríkisstjórninni eru því mótfallnir finnst mér það slæmt. En auðvitað fagna ég því að Ögmundur sé að gera eitthvað í þessum málum," segir Örn sem er mjög ósáttur við það að ríkisstjórnin hafi þetta álit mannréttindanefndar að engu.
"Stjórnvöld geta ekki bara hundsað svona álit og haft það að engu. Það hefur verið gert alveg frá fyrstu tíð, byrjaði meðan að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking voru í ríkisstjórn. Þeir töldu sig ekki þurfa að svara því á neinn einasta hátt. Sama hefur verið með þessa ríkisstjórn, nema að Ögmundur sé að byrja að vinna að þessu núna," segir Örn.
Aðspurður hvort hann óttist að þetta sé fölsk von segir hann "Það er eins og maður segir, það er ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið. Málið er , held ég, að stjórnvöld vilja ekkert með málið gera og vilja helst ekkert af okkur vita og helst að við látum aldrei í okkur heyra," segir hann að lokum.

