29.11.2011 16:20

Vilja nýja 4 milljarða Vestmannaeyjaferju

dv.is:

Tíu þingmenn leggja fram þingsályktunartillögu um smíði nýrrar ferju sem sigla á milli lands og Eyja og leysa af Herjólf sem hentar ekki.

Tíu þingmenn leggja fram þingsályktunartillögu um smíði nýrrar ferju sem sigla á milli lands og Eyja og leysa af Herjólf sem hentar ekki.

Tíu þingmenn með Árna Johnsen í broddi fylkingar hafa lagt fram þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að ríkisstjórnin hefji nú þegar undirbúning að alútboði um smíði og rekstur nýrrar Vestmannaeyjaferju sem verði tilbúin til siglinga milli Landeyjahafnar og Eyja árið 2013.

Samkvæmt tillögunni verður þess krafist að tilboðsgjafi sjái um hönnun skipsins samkvæmt útboðskröfum sem kveði meðal annars á um að skipið hafi að minnsta kosti 15 mílna ganghraða, flutningsgetu fyrir 475 farþega og 80 bíla auk vöruflutninga. Þá megi djúprista hinnar nýju ferju ekki vera meiri en 3,1 metri, Hún skal vera 70 metrar á lengd og siglingageta í Landeyjahöfn óháð vindi í að minnsta kosti 3,5 metra ölduhæð.

Flutningsmenn tillögunnar eru Árni Johnsen, Björgvin G. Sigurðsson, Róbert Marshall, Ragnheiður E. Árnadóttir, Oddný G. Harðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Margrét Tryggvadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Eygló Harðardóttir og Atli Gíslason. Þingmenn segja ljóst að Herjólfur henti ekki Landeyjahöfn og brýnt sé að fá nýja ferju.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að áætlaður kostnaður við smíði ferjunnar sé um fjórir milljarðar króna. Að auki þurfi að gera ráð fyrir kostnaði við breytingar á hafnaraðstöðu í Vestmannaeyjum, Landeyjahöfn og Þorlákshöfn vegna draumaferjunnar.

"Finna þarf hagkvæmar leiðir til að fjármagna og byggja nýja ferju og tryggja rekstur hennar og leysa þannig samgöngumál milli lands og Eyja á farsælan hátt til langs tíma. Vitað er til þess að einkaaðilar hafa lýst yfir áhuga á því að taka þátt í þessu verkefni sem gengur út á að tryggja og bæta samgöngur á milli lands og Eyja," segir að lokum í greinargerð tillögunnar.

Allt um tillöguna hér á vef Alþingis