28.11.2011 22:40
Gæslan fær að leigja þyrlu
Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis leggur til, að Landhelgisgæslan fái 200 milljóna króna framlag á næsta ári vegna tímabundinnar leigu á þyrlu.
Segir nefndin, að vegna reglubundins og meiri háttar viðhalds þyrlunnar TF-LÍF á næsta ári verði aðeins ein þyrla starfhæf til leitar og björgunarstarfa í allt að 16-22 vikur á næsta ári. Takmarkist björgunargeta það tímabil við sjóbjörgun innan 20 sjómílna frá ströndum landsins.
Á ríkisstjórnarfundi 28. október sl. hafi verið samþykkt að leita eftir tilboðum í leigu á
þyrlu á meðan TF-LÍF fer í svokallaða G-skoðun sem er allsherjarskoðun á öllum hlutum vélarinnar. Kostnaður við skoðunina sjálfa er áætlaður um 250-300 milljónir og verður uppsafnaður rekstrarafgangur Landhelgisgæslunnar, sem myndast hefur vegna sérverkefna erlendis, notaður til að fjármagna skoðunina.
