28.11.2011 17:00

Júpiter ÞH í erfiðleikum á síldarmiðunum

 Eins og sést á meðfylgjandi mynd af forsíðu Fiskifrétta horfði illa hjá Júpiter ÞH á síldarmiðunum í Breiðarfirði á dögunum. Mynd þessa tók Kristinn Benediktsson sem var um borð í Hákoni EA, en hann var að vinna efni sem koma mun síðar í Fiskifréttum. Að hans sögn og eins kom það fram í umræddum Fiskifréttum var atburðarrásin þessi:

Júpiter ÞH. var langt komið að dæla úr nótinni góðu síldarkasti á miðunum grunnt úti af Bjarnarhöfn í Breiðafirði er skyndilega drapst á aðalvél skipsins. Vilhelm Þorsteinsson EA var nýlagstur utan á Júpiter ÞH er atvikið átti sér stað til að fá síld er var afgangs og því var hægt að forða því að skipið ræki upp í klettana á Kiðey sem var skammt undan enda voru sundin þarna full af síld.

Til stóð að Hákon EA fengi restina af kastinu því Vilhelm EA gat ekki tekið nema 100-200 tonn í vinnsluna, en af því varð ekki að skipin fengju síld því pokinn á nótinni sprakk er reynt var að bakka með Júpiter ÞH frá klettunum enda líklega stærðar grjót í pokanum miðað við þyngslin.

Það var mat manna að brennsluolía hefði lekið saman við smurolíuna á vélinni og þynnt hana svo mikið að hún steindrap á sér. Vélstjórar Júpiters ÞH gátu skipt yfir á betri smurolíu og komist fyrir vandann í tíma og komst þá skipið áleiðis til Vestmannaeyja á eigin vélarafli með eitt þúsund tonn af síld í vinnslu en Vilhelm EA fór til Helguvíkur í löndun og fylgdist með Júpiter ÞH til að byrja með til öryggis ef allt myndi ekki ganga sem skyldi.


   Forsíða Fiskifrétta í síðustu viku. Á myndinni sést er 2643. Júpiter ÞH 363, er nánast kominn upp í klettana við Kiðey og 2411. Vilhelm Þorsteinsson EA 11, er alveg við hann © mynd Kristinn Benediktsson fyrir Fiskifréttir í nóv. 2011