19.11.2011 12:10
Skipstjóri gerir lítið úr hættu
Skipstjóri flutningaskipsins Ölmu sem komið var til hjálpar í Hornarfjarðarósi fyrr í mánuðinum hélt því fram við sjópróf í gær að lítil sem engin hætta hefði skapast þegar skipið missti stýrið og rak að landi.
Samkvæmt heimildum fréttastofu sagði skipstjórinn að hann hefði vel geta beint skipinu frá landi og út á sjó hjálparlaust. Þessi afstaða skipstjórans kemur á óvart að sögn Jóns Ögmundssonar, lögmanns Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Afstaða skipstjórans hafi verið önnur rétt eftir björgunina.
Það voru hafnsögubátur frá Hornafirði og síðar Hoffell, skip Loðnuvinnslunnar, sem komu Ölmu til hjálpar. Krafa um björgunarlaun mun nema hundruðum milljóna króna og við mat á björgunarlaunum skiptir máli hversu mikil hætta skapaðist.
Fram kom við sjóprófin að Landhelgisgæslan telur að stöðug hætta hafi verið yfirvofandi allan tímann og að nauðsynlegt hafi verið að koma Ölmu í örugga höfn. Um 300 tonn af svartolíu voru í skipinu og því skapaðist líka hætta á umhverfisslysi.
