10.11.2011 21:00

Frosen food

Af Facebooksíðu Óðins Magnasonar og ruv.is

      
               Gömul mynd af Green Lofoten þarsem það liggur fyrir aftan Hoffell skemmtileg tilviljun.

Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði og sveitarfélagið Hornafjörður krefjast þess að flutningaskipið Alma verði kyrrsett í Fáskrúðsfjarðarhöfn. Krafist er tryggingar vegna björgunarlauna áður en farmurinn verður hífður úr skipinu. Umboðsaðili útgerðar Ölmu reiknar með að trygging verði lögð fram bráðlega.

Flutningaskipið Alma missti stýrið í Hornarfjarðarósi aðfararnótt laugardags. Hafnsögubátur og síðar Hoffell, skip Loðnuvinnslunnar, komu til bjargar og dró Hoffellið Ölmu alla leið til Fáskúðsfjarðar. Björgunin tók um sólahring og ætla Loðnuvinnslan og sveitarfélagið Hornafjörður að krefjast björgunarlauna. Í gærkvöldi birtist hinsvegar á Fáskrúðsfirði systurskip Ölmu, flutningaskipið Green Lofoten. Það á að taka við farminum sem er um 3000 tonn af frystri síld og makríl og flytja til Rússlands. Loðnuvinnslan og Sveitarfélagið Hornafjörður fóru fram á kyrrsetningu og nýttu sér heimild í lögum sem á að tryggja að útgerðir skipa sem lenda í sjávarháska standi skil á björgunarlaunum og kostnaði við björgun. Björgunarlaun ráðast af hættumati og verðmæti skips og farms. Um verulegar uphæðir er að telfla því skipið er metið á um milljarð króna og farmurinn á um 500 milljónir. Til greina kemur að Landsbjörg krefjist hlutdeildar í björgunarlaunum en björgunarskipið Ingbjörg flutti taug milli hafnsögubátsins og Hoffellsins. Þá flaug þyrla landhelgisgæslunnar með stýrimann um borð í Ölmu til að auðvelda samskipti.

Garðar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Nesskipa, sem annast umboð fyrir útgerð Ölmu, efast um að það tefjist úr hófi að losa farminn úr skipinu. Hann reiknar með að trygging verði lögð fram á næstu dögum. Ekki standi til að hreyfa farminn fyrr en hún liggi fyrir.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa lögregluskýrslur verið teknar af öllum sem komu að björguninni og einnig skipstjóra Ölmu og er undirbúningur sjóprófa hafinn. Þegar þeim líkur þarf að ákveða hvort endanleg niðurstaða um upphæð björgunarlauna og skiptingu verður fengin með gerðardómi eða hvort málið verður rekið fyrir héraðsdómi með möguleika á áfrýjun til hæstaréttar.

Af vef rúv


Lögbannskrafan var samþykkt og því hefur skipið og farmur þess nú verið kyrrsett í Fáskrúðsfjarðarhöfn