10.11.2011 11:40

Línuþorskur 20% þyngri en í fyrra

grindavik.is:

Línuþorskur 20% þyngri en í fyrra

Markaðir fyrir stóran saltfisk eru ekki eins góðir og áður og því hefur það sett saltfiskverkendur í vissan vanda að þorskur sem veiðist á línu hjá beitningarvélabátunum er mun stærri en áður. Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri framleiðslu- og sölumála hjá Þorbirni hf. í Grindavík segir í samtali við Fiskifréttir að þeir meta það sem svo að þorskur af línubátum félagsins sé að minnsta kosti 20% þyngri að meðaltali í september og október en sá fiskur sem veiddist á línuna á sama tímabili í fyrra.

Línubátar Þorbjarnar hafa verið að veiðum fyrir austan land og einnig eitthvað fyrir norðan og norðaustan. Þorskurinn hefur verið um 3,5 kíló að meðalþyngd. Innan um er svo stór fiskur, vel yfir 7 kíló að þyngd, sem er ekki véltækur.

Gunnar bendir á að kreppan hefur leikið markaðslönd okkar fyrir saltfisk illa. Fólk þar leitar í smærri og ódýrari fisk og því fæst ekki eins hátt verð fyrir stóra fiskinn.

"Okkur gengur sem betur fer ágætlega að vinna og selja fiskinn. Við erum svo heppnir að Norðmenn, aðalkeppinautar okkar á saltfiskmörkuðum, eru með annað fiskveiðistjórnunarkerfi en við. Þeir veiða þorskinn aðallega frá áramótum og fram á vor en lítið framboð er af hráefni hjá þeim til saltfiskvinnslu á haustin. Við verðum því sem betur fer lítið varir við þá á mörkuðum á þessum tíma, sagði Gunnar við Fiskifréttir