06.11.2011 08:45
Alma kom í höfn um hálf fjögur
Flutningaskipið Alma lagðist að höfn í Fáskrúðsfirði klukkan 3:26 í nótt. Alma var dregin af togaranum Hoffelli og gekk aðgerðin eins og best verður á kosið, að sögn Landhelgisgæslunnar.
Alma missti stýrið við innsiglinguna í Hornafjarðarhöfn í fyrrinótt. Hoffellið dró skipið út á sjó, en dráttartaugin slitnaði um tveimur klukkustundum síðar.
Um klukkan hálf fjögur í gær tókst svo að koma nýrri taug milli skipanna.
Mikill viðbúnaður var hjá Landhelgisgæslunni, tvö varðskip voru send austur og var öðru þeirra snúið við þegar skipin voru komin í mynni Fáskrúðsfjarðar. Annað skipanna, nýi Þór, er enn á staðnum og bíður fyrirmæla. Þyrla Gæslunnar var einnig kölluð á vettvang og flutti stýrimann um borð í Ölmu á sjötta tímanum í gær.
Þyrlan er enn fyrir austan, en áhöfn hennar er í hvíld.
Upphaflega stóð til að Alma yrði dregin að höfn í Reyðarfirði, en siglingin til Fáskrúðsfjarðar var styttri og þótti öruggari vegna veðurs
