05.11.2011 16:20

Alma komin í tog á ný

mbl.is:

Flutningaskipið Alma er komið í tog á ný en dráttartaugin sem tengdi skipið við Hoffell slitnaði um ellefuleytið í morgun. Er stefnan tekin á Reyðarfjörð en leiðindaveður er á siglingaleiðinni frá Hvalsnesi þar sem skipin eru stödd núna. Heldur á að lægja í kvöld en hvessa á ný í fyrramálið.

Varðskipið Þór lagði af stað úr höfn um klukkan 14:30 en áætlað er að siglingin austur að Stokksnesi, þar sem flutningaskipið Alma var um miðjan dag, taki 15-16 klukkustundir. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort varðskipið Ægir verður sent austur til að aðstoða við björgun skipsins en áhöfnin er í viðbragðsstöðu.

Landhelgisgæslunni barst klukkan rúmlega þrjú í nótt aðstoðarbeiðni frá Birni Lóðs, dráttarbátnum á Höfn í Hornafirði vegna Ölmu, en stýri þess virkaði ekki þegar verið var að aðstoða skipið út fyrir ós í Hornafirði. Var stýrisblað farið, en skrúfa og vél skipsins voru í lagi. Um kl. 06:00 var komin dráttartaug komin milli Ölmu og Hoffells sem síðar slitnaði eins og áður sagði.

Þyrla Landhelgisgæslunnar er í viðbragðsstöðu á Höfn í Hornafirði sem og björgunarsveitir og lóðsinn.

Túlkur á vegum Alþjóðahússins aðstoðar starfsfólk Landhelgisgæslunnar í samskiptum við skipstjóra Ölmu en sökum tungumálaörðugleika gengu samskiptin brösuglega í morgun.

Alma er um 100 m langt skip og  skráð á Kýpur, en það hefur að undanförnu haft viðkomu í  Vestmannaeyjum og á Hornafirði.