06.10.2011 22:30

Rækjustofninn lítur betur út

bb.is:

Ástand rækjustofnsins í Ísafjarðardjúpi er mun betra en undanfarin ár.
Ástand rækjustofnsins í Ísafjarðardjúpi er mun betra en undanfarin ár.

Ástand rækjustofnsins í Ísafjarðardjúpi er mun betra en undanfarin ár. Hafrannsóknaskipið Dröfn hefur að undanförnu verið við rannsóknir í Ísafjarðardjúpi og í Arnarfirði. Hjalti Karlsson, útibússtjóri Hafrannsóknastofnunar á Vestfjörðum, vildi lítið tjá sig um stöðu rækjustofnsins í Djúpinu að svo stöddu en sagði þó að óhætt væri að segja að hann liti betur út en undanfarin ár. "Við vorum að ljúka við veiðar í gær og eigum eftir að fara yfir eitt og annað. Þetta skýrist betur í næstu viku," sagði Hjalti. Rækjuveiðar hafa ekki verið leyfðar í Ísafjarðardjúpi undanfarin sjö ár. Vonir stóðu til þess að rækjustofninn myndi halda velli með veiðibanni þrátt fyrir fjölda afræningja, en talið er að mikil fiskgengd hafi leitt til hruns rækjustofnsins í Ísafjarðardjúpi.

Rækjustofninn mældist lítill árið 2009 og hafði minnkað mikið frá árinu 2007 þegar hann virtist vera á uppleið. Í fyrra sýndu niðurstöður að litlar breytingar höfðu orðið á stærð stofnsins í Ísafjarðardjúpi. Rúm þrjú ár eru liðin síðan rækjuveiðar voru leyfðar að nýju í Arnarfirði eftir nokkurra ára veiðibann.

Í fyrra var stofnvísitala rækju í Arnarfirði í meðallagi á grunnslóð og var aðeins hærri en árið 2009, en rannsóknir árið 2005 sýndu að rækjustofninn var í algeru lágmarki í Arnarfirði. Í rannsóknarleiðangrinum núna tók áhöfn Drafnar, 22 tog í Arnarfirði og um 50 tog í Ísafjarðardjúpi. Niðurstaða ætti að liggja fyrir í næstu viku, en það er sjávarútvegsráðuneytið sem tekur endanlega ákvörðun um veiðileyfi.