06.10.2011 22:00

Beituverksmiðjan: Lokað í Súðavík - opnað í Grindavík

bb.is:

Pokabeita á framleiðslustigi.
Pokabeita á framleiðslustigi

Beituverksmiðjunni í Súðavík hefur verið lokað. Búið er að taka vinnslubúnað verksmiðjunnar niður og verður hann settur upp í nýju húsnæði í Grindavík. Verksmiðjan framleiðir pokabeitu sem þykir henta vel til ýsuveiða. Fjögur störf töpuðust í Súðavík þegar verksmiðjan lokaði en þegar best gekk hjá fyrirtækinu störfuðu fjórtán manns hjá því. Nokkrar ástæður munu liggja að baki flutningnum m.a. að Útgerðarfyrirtækið Vísir hf., í Grindavík, á meirihluta í fyrirtækinu og er með mest alla starfsemi sína í Grindavík. Sveinbjörn Jónsson, framleiðslustjóri verksmiðjunnar, segir að full þörf sé að þróa framleiðsluna en til þess að það sé hægt, sé betra að útgerðin og verksmiðjan séu nálægt hvorri annarri. Sveinbjörn segir einnig að flutningskostnaður hafi gert staðsetningu verksmiðjunnar í Súðavík mjög óhagkvæma og skertu ýsukvóti hafi haft sitt að segja.

Eftir að kvótinn var skertur gekk rekstur verksmiðjunnar ekki nema á hálfsárs grundvelli. Meiri vinna var því lögð í þróunarvinnu með það að markmiði að ná fram svipuðum árangri með aðrar fisktegundir. Sveinbjörn segir að fyrirtækið hafi ekki fengið þann stuðning til þróunarvinnu sem óskað var eftir fyrir vestan. Sótt hafi verið um tvo styrki á síðasta ári án árangurs. Hann segir að aðstaða fyrirtækisins verði mun betri í Grindavík og nefnir í því sambandi að við hliðina á nýju húsi sem verið sé að byggja yfir verksmiðjuna, verði frystiklefi sem skiptir miklu máli fyrir reksturinn. "Það er verið að skapa kjöraðstæður til að reka þessa verksmiðju og stuðla að áframhaldandi þróun beitunnar," segir Sveinbjörn