03.10.2011 20:45

Baldur verði notaður meira

ruv.is:

Baldur sigldi fyrstu áætlunarferðirnar um Landeyjahöfn í dag. Mynd: Sighvatur Jónsson
Baldur í Landeyjahöfn. Mynd: Sighvatur Jónsson

Siglingastofnun telur æskilegt að nota Breiðafjarðarferjuna Baldur meira við siglingar um Landeyjahöfn í vetur. Herjólfur er nýkominn úr slipp í Danmörku og þarf að sigla til Þorlákshafnar næstu daga þar sem Landeyjahöfn er ekki nógu djúp fyrir skipið.

Herjólfur siglir nú aftur milli lands og eyja eftir um mánaðar veru í slipp í Danmörku. Á meðan sigldi Breiðafjarðarferjan Baldur um hina nýju Landeyjahöfn. Aðstæður til dýpkunar Landeyjahafnar voru ágætar á köflum í september.

Gísli Viggósson, forstöðumaður rannsókna- og þróunarsviðs Siglingastofnunar, segir að dýpkunarskipið Skandía hafi hins vegar ekki nýst sem skyldi vegna bilunar. Það hafi í rauninni verið mjög lítið notað. Dýpkað hafi verið um nokkur þúsund rúmmetra í september. Viðgerðum á skipinu sé lokið og stefnt sé að því að hefja dýpkun um leið og aðstæður leyfa í vikunni. Gísli bendir á að það hafi ekki þurft að dýpka Landeyjahöfn mikið í september þar sem Baldur risti mun minna en Herjólfur.

Þrátt fyrir að nokkrar ferðir Baldurs hafi fallið niður á tímabilinu nýttist skipið við mun meiri ölduhæð en Herjólfur. Þannig sigldi Baldur um Landeyjahöfn í gær þegar ölduhæð var 3,6 metrar, sem er rúmlega metra yfir því viðmiði sem skipstjórar Herjólfs hafa unnið eftir undanfarin misseri.

Gísli Viggósson segir það æskilegt að nýta Baldur meira við siglingar í Landeyjahöfn í vetur. Í fyrsta lagi sé djúprista Baldurs 2,7 metrar sem þýði að dýpka þurfi mun minna en vegna Herjólfs sem risti 4,3 metra. Í öðru lagi sé formið á skipinu þannig, sérstaklega að aftanverðu, að það hafi ekki lent í sömu erfiðleikum og Herjólfur þegar það sigli inn í straumi og öldu.

 


frettir@ruv.is