20.09.2011 22:12

Hitamyndavélar í flest skip

ruv.is
Varðskipið Ægir. Mynd fengin af vef Landhelgisgæslunnar ww.lhg.is
Varðskipið Ægir. Mynd af vef Landhelgisgæslunnar

Hitamyndavélar verða komnar í langflest skip flotans innan fárra ára að mati innflytjanda slíkra véla. Þær nýtast ekki aðeins við siglingar og fiskileit heldur einnig við að finna bilanir í skipsvélum.

Hitamyndavélarnar eru meðal nýjunga sem kynntar verða á íslensku sjávarútvegssýningunni sem hefst í íþróttahúsinu Smáranum og Fífunni í Kópavogi á fimmtudag en verið er að leggja lokahönd á undirbúninginn. Fyrirtækið Ísmar flytur vélarnar inn.

Jón Tryggvi Helgason, framkvæmdastjóri Ísmars, segir að hitasjár eða hitamyndavélar nýtist skipstjórnarmanninum til siglinga sem viðbótarsiglingatæki eða sem öryggistæki. Eins nýtist hitasjáin til að finna baujur í myrkri. Þá sé þessi tækni notuð til þess að sjá fyrir bilanir í gírum og mótorum í vélarúmi skipa og er víða notuð við það. Jón kveðst sannfærður um það að innan nokkurra ára verði þessi tækni í notkun um borð í langflestum skipum flotans.

Varðskipið Ægir hefur tekið upp þessa tækni en einnig smærri skip.


frettir@ruv.is