20.09.2011 20:00
Moggafrétt í sept. 1999
Mbl. í sept. 1999.
Eldur gaus að nýju upp í Hafbjörgu
Eldur gaus að nýju upp í Hafbjörgu rétt eftir að hún hafði verið dregin að bryggju í Sandgerði en slökkviliðið var á vettvangi og réð greiðlega niðurlögum hans. mbl.is/Björn Blöndal
Eldur blossaði upp að nýju í Hafbjörgu ÁR skömmu eftir að hún hafði verið dregin að bryggju í Sandgerði í kvðld. Skipverji á Hafbjörgu ÁR sendi út neyðarkall um klukkan 15 í dag en þá var hann staddur 2-3 sjómílur undan Hafnarberginu og brúin orðin alelda. Dragnótabáturinn Baldur frá Sandgerði kom með Hafbjörgu að bryggju í Sandgerði um klukkan 18. Eldur hafði kviknað í vélarrúmi hennar á siglingu undan Hafnarbergi og fékk eini skipverjinn um borð ekkert við ráðið. Sendi hann út neyðarkall og kom sér frá borði. Brúin var orðin alelda er Baldur kom á vettvang en skipverjum á honum tókst að slökkva eldinn og tóku Hafbjörgina í tog til Sandgerðis. Skömmu eftir að lagst var að bryggju gaus eldur upp að nýju í Hafbjörgu en heimatökin voru hæg því slökkviliðsmenn voru á bryggjunni og réðu þeir niðurlögum eldsins með skjótum hætti. Hafbjörgin er 15 tonna línu- og netabátur frá Þorlákshöfn en hann er úr eik og smíðaður í Stykkishólmi 1969. Verið var að ferja bátinn er eldur kviknaði í vélarrúminu.
Skrifað af Emil Páli
