20.09.2011 13:41
Níu hnúfubakar í Ísafjarðardjúpi
bb.is | 20.09.2011
Níu hnúfubakar sáust við Vigur í Ísafjarðardjúpi í morgun. "Þetta eru 30-40 tonna skepnur, þannig að þetta sirka 400 tonn sem eru þarna," segir Sigurður Arnfjörð framkvæmdastjóri Vesturferða. Af þessu tilefni ætla Vesturferðir að bjóða upp á ferðir í Djúpið svo áhugasamir geti borið skepnurnar augum. Farið verður bæði í dag og á morgun kl. 17. "Þetta er kjörið tækifæri fyrir heimamenn að skella sér eftir vinnu," segir Sigurður. Ferðin kostar 8.500 á mann en skráning fer fram hjá Vesturferðum í síma 456 5111.
Wikipediavefurinn segir að húfubakur sé frekar kubbslega vaxinn og er sverastur um miðjuna en mjókkar til beggja enda. Kýrnar eru heldur stærri en tarfarnir eins og erum alla skíðishvali. Eitt helsta sérkenni hnúfubaks eru gríðarlöng bægsli. Þau geta orðið fimm til sex metra löng eða um einn þriðja af skrokklengd. Fremri brún bægslanna er alsett misstórum hnúðum. Sveifla hvalirnir bægslunum stundum upp úr sjónum og lemja þeim í yfirborðið, að því er virðist í leik. Þeir velta sér einnig iðulega í yfirborðinu og stökkva upp úr sjónum með miklum bægslagangi.
Skrifað af Emil Páli
