19.09.2011 00:00

Um borð í togskipi 2005

Þó skipamyndir séu nánast allsráðandi hér á síðunni, geri ég alltaf smá útúrdúr, sem tengist þó sjósókn. Tek sem dæmi lífið um borð, breytingar á skipum, klössun skipa o.fl. Hér kemur eitt slík og þar fylgjumst við með vinnunni um borð í togskipinu 1612. Hallgrími BA 59 ex Sólborgu I ÍS 260, árið 2005, en sögumaður og ljósmyndari, er Jón Páll Jakobsson, á Bíldudal.


        Á þessum var ég stýrimaður veturinn 2005 en þá var hann keyptur hingað frá Ísafirði og aflaði hráefni fyrir frystihúsið, útgerðin gekk brösuglega ekki að fiska en það gekk eins og í sögu og vorum við nánast alltaf með fullt skip, en kvótinn var enginn því fór sem fór. En þarna var gott að vera gott skip og fín áhöfn.


         Trollið að koma. Við vorum aðallega á steinbít og ýsu en svo koma einhver sölutregða með ýsuna og vorum við þá sendir á karfa og þorsk. En hér erum við á steínbít útaf Kópnum og var oft helvíti gott hjá okkur eftir stuttann tíma.


        Þarna er pokinn kominn ca 2 til 3 tonn í en við toguðum yfirleitt ekki lengur en 30 til 40 mín á þessari bleyðu


          Allt að fyllast hjá lestarstjóranum og yfirvélstjóranum í þessum túr.


         En það kom fyrir að við rifum og þá gat oft farið tími í súginn því steinbítur veiðist á á nóttunni á þessum árstíma en þetta er í feb aðeins á nóttunni. Svo þarna er bætingavinna í gangi hjá stýrimanninum og næturvaktinni.


                                            Stýrimaðurinn að hífa.


          Hér sjáum við Bílddælinginn og sjálfstæðismanninn Páll Ágústsson en við vorum aðeins tveir Bílddælingar í áhöfn ég og Palli. Þeir sem þekkja ekki Palla þá er hann auðvita á spilinu að hífa.


            Sunnudagur um borð í Hallgrími lambahryggur í matinn ekki viss hvort hann var frá Eiríki eða Palla Magg held þó að hann hafi verið úr Bónus.


                 Hér stýrimaðurinn sjálfur á toginu og allt orðið rautt hjá honum og ekkert annað í stöðunni en að hífa.


           Skipper Gísli Hallgrímsson að kanna lestina hvað mikið lestarpláss eftir, en þegar birta fór að degi kipptum við og leituðum að ýsu og í þessum túr kipptum við Norður á Straumnesbanka. En þarna áttum við lestapláss fyrir einhver tíu tonn og var ætlunin að fylla upp með ýsu á Straumnesbankanum.


       Trollið að koma hjá okkur fyrsta hal á Straumnesbankanum en þau urðu aðeins tvö þar.


        Já hölin uðru tvö þennan dag þarna á bankanum fyrra halið var ca 2 til 3 tonn eftir 4 tíma en seinna halið það var nokkuð gott eða um 20 tonn eftir rétt rúma tvo tíma en kallinn fékk blett undir sem gaf þennan flotta afla og hér sjáum við þegar halið er komið í rennuna.


        Komið inn fyrir og Palli alveg í skýjunum með þetta en það er alltaf gaman að innbyrða stórt hal.


                                     Ca 20 tonn.


       Kallinn ánægður með aflann. Þessar myndir eru teknar í feb 2005 og eru settar saman úr þremur veiðiferðum. En veiðimynstrið var alltaf eins hjá okkur þarna steinbítur á nóttunni og leitað að ýsu á daginn. Og þarna var nóg að ýsu hjá okkur og ekkert vandamál að fiska hana eins var með steinbítinn nóg var af honum þarna útaf Kópnum. 

                       © myndir og texti, Jón Páll Jakobsson, Bíldudal, 2005