09.09.2011 08:41

Blálanga hélt vinnslunni gangandi

bb.is:

Fiskvinnsla Vísis hf. á Þingeyri.
Fiskvinnsla Vísis hf. á Þingeyri.
Starfsemi útgerðarfyrirtækisins Vísis hf., á Þingeyri stöðvaðist ekki í sumar líkt og undanfarin ár og er verkefnastaða fyrirtækisins góð að sögn Sigríðar Kristínar Ólafsdóttur, verkstjóra. Hún segir að þrátt fyrir að skip fyrirtækisins landi minna á staðnum en áður, séu næg verkefni fyrir hendi en um þrjátíu manns starfa hjá fyrirtækinu. "Bátarnir lönduðu mikið hér í fyrra haust en núna landa þeir þar sem fiskað er og hráefnið er svo keyrt til okkar, en fyrirtækið er með starfstöðvar í Grindavík, Húsavík og Djúpavogi auk vinnslunnar á Þingeyri," segir Sigríður. Það er aðallega þorskur sem hefur verið verkaður á Þingeyri en í sumar var farið að vinna blálöngu í fyrsta skipti.

Vinnslunni á Þingeyri hefur gjarnan verið lokað í um þrjá mánuði yfir sumartímann meðan þorskkvótinn er að klárast. En þar sem farið var að vinna blálöngu, hefur verið hægt að hafa opið í allt sumar fyrir utan lögbundið sumarfrí, sem reyndar jókst um viku þegar sem bátar Vísis voru í slipp. Sigríður segir að starfsfólkið sé að sjálfsögðu ánægt með að vinnslan hafi verið opin í allt sumar enda taki það þó nokkurn toll fyrir lítið samfélag eins og Þingeyri þegar loka þarf einum stærsta vinnustað bæjarins. Hún segist vera bjartsýn á veturinn. "Ég hef ekki fengið upplýsingar um annað en að vinnslan haldi áfram hér í allan vetur."

Stefnt er að setja upp nýjan vinnslubúnað í fiskvinnsluna fyrir jól. Að sögn Sigríðar á hún ekki von á að uppsetning búnaðarins tefji fyrir framleiðslunni þar sem reynt verði að setja hann upp í jólafríinu.