18.08.2011 23:59

Amma á frystitogara

dv.is:

Amma á frystitogara

Eiginmaðurinn dó í örmum Matthildar en hún gafst ekki upp, fann ástina á ný og skellti sér á sjóinn.

Tengd sjónum 
Matthildur segist alltaf hafa borið sterkar tilfinningar til sjósins og henni líði hvergi betur. Jafnvel þótt hún hafi misst föður sinn ofan í djúpið bláa.

Tengd sjónum Matthildur segist alltaf hafa borið sterkar tilfinningar til sjósins og henni líði hvergi betur. Jafnvel þótt hún hafi misst föður sinn ofan í djúpið bláa. Gunnar Gunnarsson

  • Fann ástina á ný. Matthildur fann ástina í örmum Hauks. Þau vinna saman á frystitogaranum Frera.

    Fann ástina á ný. Matthildur fann ástina í örmum Hauks. Þau vinna saman á frystitogaranum Frera. Gunnar Gunnarsson

Matthildur Hafsteinsdóttir var aðeins 12 ára gömul þegar sjórinn tók föður hennar frá henni. Þrátt fyrir það hefur hún alltaf elskað hafið bláa og líður hvergi betur heldur en einmitt úti á sjó. Hún giftist sjómanni, eignaðist með honum börn og varð sjómannskona. Sjómaðurinn hennar dó seinna í örmum hennar langt fyrir aldur fram og spítalinn brást henni, syrgjandi ekkjunni. Hún gafst ekki upp heldur stóð á sínu og fann ástina á ný og réð sig svo til starfa á frystitogara.

"Mér fannst ég bara vera frjáls þegar ég var komin út á sjó. Þetta er minn uppáhalds staður og mér líður hvergi betur," segir Matthildur sem er kokkur á frystitogaranum Frera. Hún er 62 ára, þriggja barna móðir og amma ellefu barna. Hún var komin yfir sextugt þegar hún réð sig til starfa á frystitogara og veigrar sér ekki við því að vera á sjó í allt upp undir 40 daga í senn, enda segir hún að henni líði hvergi betur heldur en á sjónum.

Sjómennskuna segir hún vera sér í blóð borna og hún hafi alltaf haft sterkar taugar til sjósins þrátt fyrir að hún hafi horft á eftir föður sínum ofan í hafið, en hann drukknaði þegar hún var aðeins 12 ára gömul. "Pabbi minn var alltaf á sjó og maðurinn minn vann lengi vel á sjó. Ég fékk oft að fara með pabba á sjóinn og fannst það alltaf jafn gaman. Ég fann það fljótt þegar ég fékk að fara með pabba hvað ég hafði mikinn áhuga. Ég var aldrei sjóveik eða neitt slíkt heldur leið bara vel á sjónum," segir Matthildur og horfir út á sjóinn út um gluggann á Kaffivagninum við höfnina. Hún valdi að hitta blaðamann á þeim stað því henni líður einkar vel við sjóinn. Í viðtalið fylgdi henni sambýlismaður hennar, Haukur Harðarson sem hlustar af athygli á frásögn Matthildar.

Réði sig á frystitogara komin yfir sextugt
En aftur að sjónum. Áður en hún réð sig á frystitogara hafði hún lítið unnið á sjónum fyrir utan eitt sumar á ísfrystiogara fyrir um 20 árum síðan. "Ég var á Gylli frá Flateyri í kringum 1990. Þá var maðurinn minn sálugi líka um borð. Mér líkaði það rosalega vel og fór oft með þeim í siglingar. Ég var einhvern veginn bara svo tengd sjónum."

Eftir það vann hún ýmis störf, yfirleitt sem matselja hjá hinum ýmsu fyrirtækjum í landi en sjórinn togaði alltaf í hana og hana langaði að fara aftur á sjóinn. Hún var því himinlifandi þegar henni bauðst starf kokks á frystitogara fyrr á þessu ári. Henni fannst það lítið mál að skella sér á sjóinn þrátt fyrir að vera orðinn 62 ára gömul. "Ég hef alltaf haft áhuga á sjó og greip þetta bara fegins hendi þegar það bauðst. Ég var búin að stinga því að kokknum á Frera að ef það vantaði kokk þá væri ég til. Það var nýbúið að loka mötuneytinu sem ég vann í og ég var svona milli vinna."

Hún hitti fyrir tilviljun kokkinn á Frera á Kanaríeyjum. Hún kannaðist lítillega við hann og stakk því að honum að hóa í sig ef það vantaði kokk. "Ég spurði hann að því hvort hann myndi vilja hafa mig í huga ef það vantaði aðstoðarkokk." Henni bauðst fljótlega að leysa af eftir það og hefur farið í einn túr nú þegar og hlakkar til að fá boð um að fara í þann næsta.
Núverandi sambýlismaður hennar, Haukur, vinnur einnig á Frera og kynnti hana fyrir kokkinum.

Dó í fanginu á henni
Nokkrum árum fyrr hefði hana þó ekki órað fyrir því að hún færi að vinna á sjó þó að vissulega hafi hana alltaf langað. Þá var hún gift sjómanni. Þau bjuggu flest sín hjúskapaár á Flateyri þar sem hann var til sjós. Árið 1992 fluttu þau í bæinn því hún var einmana eftir að börnin flugu úr hreiðrinu og var orðið leið á snjónum. "Ég var orðin svolítið einangruð. Börnin voru flutt og ég var mikið ein og langaði að breyta til. Ég var líka komin með leið á snjónum," segir hún en bætir hlæjandi við: "Það hefur samt varla snjóað þarna síðan við fluttum," segir hún hlæjandi. Hún á þó enn sumarbústað fyrir vestan sem hún reynir að dvelja í reglulega.

Maðurinn hennar vann lengst af á sjó og var mjög hraustur að hennar sögn. Hann lést hins vegar skyndilega fyrir sjö árum. "Við kynntumst þegar við vorum 15 og 17 ára og fengum 35 yndisleg ár saman. Hann dó svo í fanginu á mér á Læknavaktinni í Kópavogi á Föstudaginn langa árið 2004."

Maðurinn hennar hafði ekki sýnt nein merki þess að vera veikur en hafði verið slappur þennan dag. "Hann var eitthvað svo slappur en vildi ekki hringja á sjúkrabíl því að við vorum með tvö barnabörn hjá okkur. Við ætluðum bara að byrja þar en hann komst ekki einu sinni inn til læknisins. Hann dó eiginlega í fanginu á mér á biðstofunni. Fékk hjartastopp," segir hún alvarleg í bragði. "Þetta var alveg rosalega erfitt."