18.08.2011 08:00

Tvö bátsströnd á svipuðum stað

Hér fjalla ég lítillega um tvo báta sem strönduðu á nánast á sama stað með nokkra ára millibili, annar ónýttist á staðnum en hinum var bjargað og endurbyggur en sökk síðan 25 árum síðar, en þá vissu yfirvöld ekki annað en að hann hafi verið fyrir löngu seldur úr landi og farið. Annar strandaði fyrir neðan Fiskiðjuna sálugu í Keflavík en hinn rétt fyrir innan hana.


     Frá björgun skipverja úr 787. Þerney KE 33 © mynd úr Faxa
Báturinn sem upphaflega var smíðaður í Frederikssund í Danmörku 1955, strandaði í Keflavíkurhöfn 17. janúar 1970 og var síðan bjargað af Björgun hf., Endurbyggður og lengdur í Njarðvik 1971 og stórviðgerð í Keflavík 1982.

Hann var síðan úreltur í febrúar 1991 og seldur úr landi 13. nóvember það ár skv. skipaskrá. Báturinn lá þó í Ólafsfjarðarhöfn þar til um miðjan janúar 1995 að draga átti hann til Garðabæjar, en á leiðinni sökk hann út af Hornbjargi. Þá vissu yfirvöld ekki annað en að báturinn hefði farið verið seldur úr landi á sínum tíma.

Nöfn: Sigurður Árnason SU 85, Þerney KE 33, Sigurður Ólafsson SF 44, Sigurður Sveinsson SH 36, Marz KE 197, Marz ST 150, Marz ÓF 44 og Guðvarður ÓF 44.


     743. Valþór GK 25, á strandstað undan Stekkjarhamri, Njarðvík © mynd úr Faxa
Báturinn var smíðaður í Fredrikssund, Danmörku 1960 og rak upp og strandaði þarna 24. mars 1973. Þegar báturinn strandaði var hann að fara til bjargar Bakkafossi sem var með í skrúfunni. En á sama tíma og það losnaði úr skrúfu Bakkafoss og vél skipsins komst  í gang fékk Valþór í skrúfuna og rak upp í kletta. Fullyrt var í sjóprófum að um sama tóg hefði verið að ræða. Sagt var að síðan hefði Goðinn komið á staðinn og rifið bátinn í sundur á strandstað og hvarf hann alveg á örfáum dögum.

Nöfn: Sigurður AK 107, Sigurður VE 35, Bergþór GK 25 og Valþór GK 25