18.08.2011 00:00

Þriðja kynslóð norskra beitningavélabáta

Jón Páll Jakobsson, skipstjóri í Noregi er mjög iðinn við að skrifa á síðuna sína um ýmislegt forvitnilegt hvað útgerðarmál og bátamál varðar. Hér er umfjöllun hans um beitingavélabáta, sem ég ætla mér að taka það leyfi að birta hér.

                                                  Koralen M-106-M

Hér sjáum við línubátinn Koralen fiska rétt við 1,5 sjm viðmiðið. Koralen var smíðaður 1989 og er 38,1 m. langur og 8,5m breiður. Eigum við ekki að segja að Koralen sé af þriðju kynslóð af norskum beitingavélabátum en hann er smíðaður á svipuðum tíma og Tjaldarnir. Ég notaði góða veðrið og renndi svona að honum til að bara mynda hann og sjá hvernig fiskeríið væri en skipper sagði mér að það væri mjög dapurt og hefur sennilega verið rétt hjá honum því næsta dag var hann horfinn eitthvað lengra norður kominn fyrir utan okkar vaktsvæði. En reglurnar hjá okkur voru þær að við fylgdumst vel með öllum fiskiskipum sem kæmu inn fyrir 20 sjm radíus frá FPSO Skarv svæðin.



                                    Koralen M-106- H

Ekki er nú mikið um að vera á rúllunni ekki margir á lofti og rúllumaðurinn nánast í sparifötunum við starfið. Líka sagði skipstjórinn mér að þetta væri svona hálfgerð afslöppun þessar löngu og keiluveiðar hjá þeim á sumrin.

Sjáið þið leiðarna sem liggja aftur með síðunni en þeir henda drekunum út um dráttarlúguna þegar þeir eru að leggja.



                                               Koralen M-106-H

Og hér sjáum við Koralen þegar við vorum að nálgast hann Þarna er hann svona ca 1,7 sjm frá viðmiðinu og 3 sjm frá borpallinum.

 Næsta dag varð ég var við Línubátinn Vestfisk og sá að hann var að leggja línuna og kom næst okkur í 15,5 sjm fjarlægð frá FPSO Skarv. Svo ég ákvað að kalla hann upp og byrjaði með mína flottu norsku (hún er nú frekar svona léleg nordiska). Þá var bara svarað á íslensku þá var vélstjórinn íslenskur og var uppi að leysa kallinn (skipstjórann) af, en það er algengt á norskum línubátum að vélstjórinn leysi skipstjórann af.

Vestfisk er smíðaður árið 1980 og er 39 m langur og 8,5 m breiður. Hann var yfirbyggður ár 1997 eigum við ekki að segja að Vestfisk sé af annari kynslóð af norskum Beitingavélabátum.

 Þið sjáið  að Koralen er með hefðbundinn búnað við að dragalínuna hann er reyndur orðinn dálítið meira tæknivæddur að hann er kominn með íslenska rúllu þ.e.a.s slítara maðurinn á goggnum þarf ekki að slíta fiskinn af krókunum sjálfur en það eru nokkrir ennþá þannig hérna og er bara frekar algengt í landróðrabátunum.

Ég rakst á skýrslu sem var gerð varðandi drátt á línu og þar var borið saman þrjár mismunandi aðferðir við línudrátt. Hefðbundinn, í gegnum brunn og svo í gegnum lúga sem er alveg í sjólínunni á bátnum. Var farið með þremur skipum. Vonar sem er með hefðbundinn línudrátt. Geir sem dregur í gegnum brunn og svo Loran sem er með lúgu í sjólínunni. Í stuttu máli voru niðurstöðurnar þær að í gegnum brunn var tapið 0,4%-0,8 % af fiski. Með lúgu í sjólínunni var tapið af fiski 1,3%-1,6%, og með hefðbundnum búnaði var tapið 2,4% - 3,0 %. Með því að draga í gegnum brunn eða með lúgu í sjólínunni losnaður þú að langmestu hluta við goggstungur og þar af leiðandi meira gæði á fiskinum sem komið er með í land.


 

                 Geir II © myndir og texti Jón Páll Jakobsson, í ágúst 2011

Hér sjáum við svo GeirII hann dregur í gegnum brunn, held ég fari með rétt mál að það séu bara tvo skip sem gera þetta hérna Geir II og Geir sem eru í eigu sama útgerðarfélags. Þeir fullyrða að þetta sem miklu betra og þá sérstaklega viö veiðar á ýsu. Þeir hljóta hafa eitthvað til síns máls því þeir létu smíða þennan alveg eins útbúinn eins og sá gamli (gamli veit ekki hvort það sé rétta orðið smíðaður 1998 ekki gamalt miðað við íslenska beitingavélaflotann) sem þeir eiga ennþá.

 Þeir sem áhuga að sjá myndband sem var tekið þegar þessa skýrsla var gerð geta séð það á þessari síðu.  www.fish.no/fiskeri/2115-bedre-med-aut-linehaler-og-dragebronn.html . Og smella svo á "nye halemetoder i autolinefsiket" í lokin á greininni þá sjáið þið myndband um þessar aðferðir í aksjon. Myndbandið er ekki í góðum gæðum en skýrir þetta alveg vel út. Þannig að það má segja að frá fyrstu beitingavélabátunum til Geirs og Geirs II sé orðinn mikll framþróun. Ég veit ekki hvernig nýja Fiskanesið verður útbúið held þó að það verði með lúgu í sjólínunni það kalla norðmenn automatisk linehaling.