02.07.2011 14:12
Christina strandaði við Lundey, 8 manns bjargað
Enginn slasaðist þegar skemmtibáturinn Christina strandaði við Lundey í Kollafirði um klukkan 11 í morgun. Um borð voru þrír fullorðnir farþegar, þrjú börn og tveir í áhöfn.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni sem fram komu á mbl.is er báturinn lítið skemmdur. Talsverður halli var á bátnum og því var gripið til þess ráðs að setja út björgunarbáta. Svæðið sem um ræðir getur verið erfitt þar mikið er um smásker auk þess sem fjara var um það leyti sem báturinn strandaði.
Björgunarsveitir frá Kópavogi, Reykjavík og Kjalarnesi komu á vettvang á þremur harðbotna björgunarbátum og einu björgunarskipi Slysavarnafélagsins-Landsbjargar. Fyrsti báturinn var kominn á vettvang um hálftíma eftir útkall eða um klukkan 11.45.
Við fyrstu skoðun virðist ekkert gat hafa komið á bátinn. Til stendur að draga bátinn á flot um kvöldmatarleytið þegar flóð verður í hámarki.
Skemmtibáturinn Christina hefur verið notaður í skemmtisiglingar í nokkur sumur, undir ýmsum nöfnum.
2241. Christina, á siglingu í Reykjavíkurhöfn © mynd Emil Páll, 30. júní 2010
