02.06.2011 15:07

Lífið um borð í humarbáti

 

- Ljósmyndasýning Kristins Benediktssonar í ráðhúsinu Þorlákshöfn, í júní 2011

 

Kristinn Benediktsson, ljósmyndari og blaðamaður, heldur ljósmyndasýningu í ráðhúsi Ölfusbæjar, sem hefst föstudaginn 3. júní klukkan 17.00.

Kristinn fór fyrir skömmu í róður með humarbátnum Jóni á Hofi ÁR fyrir tímaritið Fiskifréttir til að skrifa og mynda allt hátt og lágt í grein um lífið um borð sem birtist í sjómannadagsblaði útgáfunnar. Þegar hann kom í land og fór að vinna úr efninu sem hann hafði aflað sér, vaknaði sú hugmynd að halda sýningu á völdum myndum úr róðrinum í tilefni af sjómannadeginum, Hafnardaga og 60 ára afmælis byggðar í Þorlákshöfn. Sýningin mun standa í mánuð.

Kristinn Benediktsson nam ljósmyndun í lok sjöunda áratugar síðustu aldar hjá Ljósmyndastofu Þóris og vann hjá Morgunblaðinu með náminu auk nokkurra ára á eftir eða samtals 10 ár. Árið 1976 fór Kristinn að taka myndir markvisst úti á sjó fyrir tímaritið Sjávarfréttir sem þá var gefið út og var forveri Fiskifrétta. Um árabil bjó Kristinn í Grindavík þar sem hann starfaði við verkstjórn í saltfiskverkun auk þess sem hann stundaði sjómennsku í nokkur ár. Hann nýtur góðs af þeirri reynslu í dag þegar hann vinnur í blaðamennsku og ljósmyndun í sjávarútveginum, undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.
















  Sýnishorn úr veiðiferðinni sem Kristinn Ben. fór með 1645. Jóni á Hofi ÁR 42, en mun fleiri myndir sýnir Kristinn á sýningunni sem hann opnar í Þorlákshöfn á morgun kl. 17 © myndir Kristinn Benediktsson, í maí 2011